- Advertisement -

Vill neyðarstjórn yfir Landspítalanum

Vandi Landspítalans er stjórnunarvandi. Það þarf að taka á stjórnun Landspítalans.

„Á Landspítalanum ríkir neyðarástand,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki í þingræðu fyrr í dag.

„Þessi umræða um neyðarástand á Landspítalanum er ekki ný. Hér var sérstök umræða að frumkvæði Miðflokksins í janúar sl. þar sem farið var yfir neyðarástand á bráðamóttökunni þá, bráðavanda Landspítalans. Eftir lítils háttar uppflettingu fann ég nákvæmlega sömu orðin fyrir árin 2009, 2013, 2016 og 2018; neyðarástand á Landspítalanum. Öll þessi ár, neyðarástand,“ sagði Þorsteinn.

Hann sagði ljóst að búið sé að stórauka fjárframlög til spítalans án þess að aukin framlegð hafi litið dagsins ljós. „Það er líka alveg ljóst að undir þessum kringumstæðum núna, þegar neyðarástand ríkir á Landspítalanum, er enn reynt að hrúga inn á spítalann verkefnum sem hann ræður ekki við. Starfsfólkið á bara að hlaupa hraðar og sjúklingarnir eiga að bíða lengur frammi á gangi. Þetta er ekki boðlegt.“

Þorsteinn er ekki í vafa: „Vandi Landspítalans er stjórnunarvandi. Það þarf að taka á stjórnun Landspítalans. Þar þarf alveg örugglega að gera mannabreytingar og þar þarf alveg örugglega að gera skipulagsbreytingar. Það gæti m.a. falist í því að setja tímabundið neyðarstjórn yfir spítalann. Það gæti líka falist í því til lengri tíma að setja stjórn yfir starfsemi spítalans en það er alveg ljóst, herra forseti, að sjúklingar sem bíða á Landspítalanum eftir þjónustu geta ekki beðið eftir henni lengi.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: