Það tækifæri þarf að nýta hratt og vel.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vill að sett verði neyðarlög; „…til að verja íslenskan landbúnað og innlenda framleiðslu matvæla.“
Þetta og fleira kemur fram í Moggagrein í dag. „Nú hlýtur að vera komið að því að við lærum að meta mikilvægi íslensks landbúnaðar. Aðstæður nú veita okkur sem fullvalda ríki heimild til að endurskoða ráðstafanir með það að markmiði að verja eigin matvæla- og fæðuöryggi. Það tækifæri þarf að nýta hratt og vel. Setja þarf saman neyðarlög til að verja íslenskan landbúnað og innlenda framleiðslu matvæla. Þau þurfa að fela í sér fjárhagslegan stuðning og endurskoðun þeirra samninga og regluverks sem þrengt hefur að greininni,“ skrifar Sigmundur Davíð.
„Áður en kórónuveirufaraldurinn og áhrif hans tóku að birtast var ljóst að íslenskt atvinnulíf væri í vanda sem þyrfti að bregðast við. Við upphaf þings eftir áramót ræddu þingmenn Miðflokksins þetta og boðuðu aðgerðir til að bregðast við ástandinu.
Afraksturinn var meðal annars áætlun sem við kölluðum „þrístökk í þágu atvinnulífsins“.
Megininntak áætlunarinnar er eftirfarandi.
- 1. 150 milljarða króna viðbót verði sett í innviðauppbyggingu á næstu þremur árum. Áhersla verði lögð á framkvæmdir við samgöngumannvirki, flutningskerfi raforku og ferðamannastaði auk átaks í byggingu hjúkrunarheimila. Lánskjör íslenska ríkisins hafa aldrei verið eins góð og að undanförnu og það ástand sem nú ríkir í efnahagsmálum heimsins mun enn styrkja þá stöðu.
- 2. Tryggingargjald verði lækkað um heilt prósentustig umfram núverandi áform og gistináttagjald afnumið.
- 3. Bindiskylda bankanna verði lækkuð til að ýta undir lánveitingar til fyrirtækja.
Þótt við höfum lagt drög að þessum tillögum og talið mikla þörf fyrir þær strax í þingbyrjun eru þær nú orðnar nauðsyn ásamt öðrum aðgerðum til að bregðast við því ástandi sem blasir við,“ segir í grein Sigmundar Davíðs.