„Í ljósi umræðunnar á Alþingi í dag um samgöngumál þá vil ég upplýsa að ég hef þegar óskað eftir að samgönguráðherra komi á fund fjárlaganefndar, ásamt fulltrúum Vegagerðarinnar. Það gengur ekki að ráðherra gangi gegn vilja Alþingis varðandi tiltekin samgönguverkefni.“
Þannig skrifar Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, á Facebook í dag.
„Hvað á það t.d. að þýða að Hornafjarðarfljót er tekið út af verkefnalista án samráðs við þingmenn kjördæmisins? Umhverfismatið fellur úr gildi á þessu ári, þannig að ef að framkvæmdir eiga sér ekki stað árið 2017 þá erum við að tala um að vegabætur á þessu svæði þurfi mögulega að bíða í 10 ár til viðbótar. Þarna fer um fjöldi fólks og yfir fljótið er hættulegasta einbreiða brú landsins. Stórhættulegt mannvirki í ljósi umferðarþungans sem þarna er. Ólíðandi vinnubrögð.“