„Ég kem hérna upp því að mig langar að benda háttvirtum þingheimi á það að þetta er uppskrift að tveimur alveg hrikalega leiðinlegum dögum fram undan,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir Sjálfstæðisflokki.
En hvað er svona leiðinlegt:
„Það að við skulum hafa það þannig í þingsköpum að það sé tvöfaldur ræðutími þegar við ræðum fjárlögin og flutningsmenn nefndarálita geti haldið klukkutíma ræðu held ég að sé eitthvað sem enginn í þessum sal hefur áhuga á, hvað þá þarna úti, með fullri virðingu fyrir ykkur, háttvirtir þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd. Ég veit að þið hafið lagt mikla vinnu í þessi ágætu nefndarálits en þau liggja fyrir á prenti.“
Bryndís telur að fleiri þingmenn sætu undir umræðunni væri hún skemmtilegri.
„Nú held ég að séu 16 manns á mælendaskrá og það er óvíst hvenær einhverjir komast að sem ætla að skrá sig fyrir utan það. Mig langar að beina því til háttvirtra þingmanna að við höldum kannski örlítið styttri ræður og komum frekar fleiri upp og förum í andsvör og höfum þetta svolítið knappara og skemmtilegra form.“
Oddnýju Harðardóttur var brugðið við orð Bryndísar: „Ég heyrði háttvirtan þingmann, Bryndísi Haraldsdóttur tala hérna, heyrði í henni gegnum skjáinn í þingflokksherbergi Samfylkingarinnar og mér varð mikið um. Getur verið að ég hafi heyrt rétt? Er háttvirtur þingmaður að kveinka sér undan lýðræðislegri umræðu um fjárlög, helsta stefnuplagg ríkisstjórnarinnar? Það eru sannarlega tíðindi.
Herra forseti. Ég hvet alla þingmenn, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu að nýta sér plássið sem þeir hafa til að ræða fjárlög ríkisstjórnarinnar, helsta stefnuplaggi hennar. Ekki þykir mér sú umræða leiðinleg,“ sagði Oddný greinilega ófús til að blása meira lífi í umræðuna.
Bryndís gat ekki endað þetta með þessum hætti. Hún kom aftur í ræðustól:
„Sá þingmaður sem hér er kveinkar sér ekki undan því að ræða eins frábært plagg og fjárlög næsta árs eru, kveinkaði sér heldur ekki undan því að ræða fjármálastefnu eða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar,“ sagði Bryndís. Og bætti við: „Það sem háttvirtur þingmaður var fyrst og fremst að benda á er að það væri hægt að hafa þessa umræðu öllu skemmtilegri og líflegri því að það er bara ansi langt að hlusta á klukkutíma ræður, jafnvel þó að vinnan á bak við það sé góð og allt sem fram kemur í nefndarálitinu kunni að vera allt saman unnið af góðum hug.“ Þarna sjálfa sig sem háttvirtan þingmann.
„Ef við hefðum styttri ræðutíma, flestir ættu að geta komið sínu á framfæri á 20 mínútum eins og ég held að viðgangist í öllum þjóðþingum í kringum okkur, þar eru ræðurnar öllu styttri, þá tekur fólk þátt og fer í andsvör og við eigum málefnalegar og skemmtilegar umræður. En þetta er í mínum huga uppskrift að frekar leiðinlegum þingdögum, virðulegur forseti,“ endaði hún mál sitt.
Brynjar Níelsson sat á forsetastóli. Hann hafði þetta að segja: „Forseta finnst bara mjög gaman hérna.“ Svo mörg voru þau orð.