Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í umræðu um samgöngur og nýframkvæmdir á Alþingi, að hann vilji að skoðað verði að hægja á eða fresta framkvæmdum Isavia á Keflavíkurflugvelli.
„Það mun væntanlega hægja á þeim mikla vexti sem er í komu ferðamanna til landsins. Það mun líka skapa svigrúm til annarra framkvæmda því að það er ekki hægt að vera í tug- og hundruð milljarða framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli og um leið fara á í aðrar framkvæmdir. Það mun einfaldlega þýða stóraukna þenslu.“
Gunnar Bragi er með fleiri hugmyndir. Meðal annars að draga úr greiðslu skulda ríkissjóðs. „Ég held að það sé ein leið enn til þess að afla fjár. Hún er að sjálfsögðu ekki alveg sársaukalaus, það er að hægja á greiðslu skulda ríkissjóðs og ná í einhverja fjármuni þar. Það að sjálfsögðu er ekki gallalaust því að þá munum við að sjálfsögðu sitja áfram með vaxtagreiðslur, sem eru vissulega dýrar, en þar er hægt að ná í fjármuni.“