Vill fara betur með peninga borgarinnar
„Velta þarf við hverjum steini með það að markmiði að nýta peninga borgarbúa sem allra best í þeirra þágu.“
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, er ekki sátt hvernig farið er með peninga borgarinnar.
Kolbrún segir: „Borgarstjórn er treyst til að sýsla með útsvar borgarbúa og dreifa þeim til samfélagsins með sanngjörnum hætti. Það á að vera siðferðisleg skylda okkar að fara vel með fjármuni borgarbúa og gæta þess í hvívetna að hverri krónu sé ráðstafað fyrst og fremst í beina þágu borgarbúa t.d. með því að auka og betrumbæta þjónustu við borgarbúa.“
Hún segir áleitnar spurningar hafa leitað á sig hvað varðar hvort nægjanlega sé gætt að sparnaði í borginni. „Fyrst má nefna aðkeypta þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga sem borgarfulltrúi telur að fagfólk borgarinnar eigi að geta sinnt öllu jöfnu með einfaldara og skilvirkara skipulagi.“
Kolbrún spyr um kostnað við ferðir erlendis. „Hér ekki verið að tala um hótel- og flugkostnað heldur dagpeningakostnað sem oft eru umfram það sem þörf reynist. Mörg fyrirtæki eru komin með svokölluð viðskiptakort sem á eru ákveðið eðlilegt hámark.“
Enn er það skrifstofa borgarstjóra. Kolbrún bókaði: „Annar kostnaður sem kanna þarf með, er árlegur kostnaður borgarinnar af hinum ýmsu móttökum og öðrum viðburðum tengdum borginni? Stærsti liðurinn sem vekur þó athygli er hár rekstrarkostnaður skrifstofu borgarstjóra. Velta þarf við hverjum steini með það að markmiði að nýta peninga borgarbúa sem allra best í þeirra þágu. Þjónustu á aldrei að skerða, þjónusta á heldur ekki að vera viðunandi heldur fullnægjandi.“