Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, gerir enn tilraun til að samþykkt verði að flytja Landhelgisgæsluna til Reykjanesbæjar.
Þingmennirnir Sigurður Ingi Jóhannsson, Oddný G. Harðardóttir og Ásmundur Friðriksson leggjast á árar með Silju Dögg. Tillagan er stutt: „Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að hefja undirbúning að flutningi Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.“
Í lok greinargerðarinnar segir: „Með flutningi Landhelgisgæslunnar á Suðurnes mundi ríkisvaldið gera Landhelgisgæsluna að enn öflugri stofnun til hagsbóta fyrir landsmenn alla, aðstaðan fyrir starfsemina yrði mun betri og tryggð til framtíðar og síðast en ekki síst mundi flutningurinn styðja við atvinnuuppbyggingu á svæðinu öllu.“
Í greinagerðinni segir einnig að nú sé Landhelgisgæslan með starfsemina dreifða í leiguhúsnæði á mörgum stöðum, þ.m.t. höfuðstöðvarnar í Skógarhlíð, og stendur gæslan straum af rekstrarkostnaði flugskýlisins á Reykjavíkurflugvelli, sem er í eigu íslenska ríkisins og rekið af Isavia. Stækkunarmöguleikar á Reykjavíkurflugvelli, þar sem flugsveitin er nú, eru ekki fyrir hendi og húsnæðið mjög óhentugt í alla staði. Í byggingum á öryggissvæðinu er hins vegar aðstaða fyrir alla starfsemi gæslunnar. Þar er landsvæði sem hægt er að laga að þörfum stofnunarinnar og velvilji er hjá öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum.
Silja Dögg skrifar í greinargerðina: „ Á svæðinu er einkar góð hafnaraðstaða: Njarðvíkurhöfn, Keflavíkurhöfn og Helguvíkurhöfn. Nú þegar ber Landhelgisgæslan ábyrgð á rekstri hluta Helguvíkurhafnar, þ.e. þess hluta sem er á eignaskrá Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins. Úttekt á nauðsynlegum breytingum á hafnaraðstöðu liggur fyrir (2009). Njarðvíkurhöfn getur strax tekið við skipaflota Landhelgisgæslunnar og Helguvíkurhöfn kemur einnig til greina enda hafa varðskipin reglulega viðkomu þar. Staðsetning hafna út frá öryggissjónarmiðum mundi batna frá því sem nú er þar sem styttra yrði fyrir varðskipin að komast út á aðalstarfssvæði Landhelgisgæslunnar, hafsvæðið í kringum Ísland.
Með samþættingu verkefna munu möguleikar Landhelgisgæslunnar til að sinna leit og björgun í samstarfi við nágrannaþjóðir margfaldast en Landhelgisgæslan nýtir nú þegar öryggissvæðið í þeim tilgangi. Það hefur háð Landhelgisgæslunni að hafa ekki verið með viðeigandi tengimöguleika, sem eru til staðar suður frá á sviði leitar og björgunar, öryggis- og varnarmála, löggæslu, umhverfisverndar og auðlindagæslu, við stofnanir nágrannaríkja sem flestar eru herir eða stofnanir á vegum varnarmálaráðuneyta samstarfsþjóðanna.“