Sveitastjórnir
„Mál Brákarborgar er hneyksli og ber vott um dómgreindarleysi fólks sem gefur sig út fyrir að vera sérfræðingar á sviðinu. Nú vill meirihlutinn að Innri endurskoðun og ráðgjöf rannsaki málið en Flokkur fólksins telur að finna þurfi aðila ótengdan borgarkerfinu til að kryfja þetta mál ef finna á út hver ber ábyrgðina. Meirihlutinn, ekki síst sá síðasti, hefur verið gapandi yfir ótrúlegustu hlutum og látið plata sig upp úr skónum. Hver man ekki eftir verkinu Pálmatré eða dönsku stráunum? Það eru eiginlega engin takmörk fyrir hvað valdhafar borgarinnar hafa látið temja sig út í mikla vitleysu á kostnað borgarbúa,“ segir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins.
„Hinn 30. júlí skrifaði oddviti Flokks fólksins grein um Brákarborg og torfþakið sem bar titilinn „Torfþakið varð að mýri“. Auðvitað reikna allir með að skipulags-, hönnunar- og arkitektasviðið viti t.d. að vatn er þungt. Losna þarf fljótt við það vatn ef það er á flötu þaki. Vatnið þarf að færast frá miðju þaksins út í rennur sem tekur óratíma. Því má segja að með torfþakinu á Brákarborg hafi verið mynduð mýri. Torfþök fyrr á öldum voru algeng en þau voru brött. Þá skildu menn að vatnið þurfti að renna fljótt á brott. Hefur þessi þekking glatast meðal hönnuða?“ bókaði Kolbrún í borgarráði.