Alþingi
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um útlendinga á Alþingi i gær. Hér á eftir fer kaflinn þar sem hún talaði um kærunefndina.
„Núverandi skipan kærunefndar er þannig að tveir af sjö aðalmönnum hafa starfið að aðalstarfi, þ.e. formaður og varaformaður nefndarinnar. Hinir fimm aðalmennirnir hafa starfið að aukastarfi og mæta að jafnaði eingöngu á nefndarfundi á tveggja vikna fresti. Þróun innan málaflokksins hefur verið hröð og kærumál margfaldast. Erfitt hefur reynst fyrir kærunefndina að anna þessum fjölda og taka á málahala sem myndast hefur. Núverandi fyrirkomulag kærunefndar, þ.e. að meiri hluti nefndarmanna hafi nefndarstörfin að aukastarfi, hefur reynst þungt í vöfum auk þess sem það býður ekki upp á nægjanlegan sveigjanleika við afgreiðslu kærumála. Í megindráttum felst í fyrirhuguðum breytingum að nefndarmönnum verði fækkað úr sjö í þrjá sem hafi allir starfið að aðalstarfi. Áfram verður gerð krafa um að nefndarmenn hafi sérþekkingu á þeim sviðum sem fjallað er um í nefndinni, þar á meðal stjórnsýslurétti og mannréttindum. Með því að bæta við nefndarmanni sem hefur starfið að aðalstarfi er kærunefndinni gert kleift að afgreiða kærumál jafnóðum og þannig mæta auknum málafjölda.“