Vill að Óli Björn lesi heima
„Ég tel ekki að þingmenn geti verið upplýstir um allt sem í gangi er í samfélaginu á hverjum tíma. Hins vegar má gera þá kröfu til þingmanna að þeir séu almennt vel upplýstir, fylgist vel með hvað sé að gerast í samfélaginu og hafi puttann á púlsinum eins og hægt er. Eins er rétt að gera þá kröfu til þingmanna þegar þeir láta gamminn geisa í fjölmiðlum, að þeir séu búnir að vinna heimavinnuna sína og viti hvað þeir eru að tala um. Eða að minnsta kosti hafi einhverja lágmarkshugmynd um það,“ skrifar Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis í Moggann í dag.
Og hvert er tilefnið:
„Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins skrifar hálfsíðugrein í Morgunblaðið 28. apríl síðastliðinn. Þar fer hann mikinn um launaþróun opinberra starfsmanna og ber fyrir sig alls konar upplýsingar um að opinberir starfsmenn sitji við einhverja þá kjötkatla í launamálum sem almenni markaðurinn hafi ekki aðgang að. Í röksemdafærslu sinni og talnaleikjum tekur hann þó fram að „á almenna vinnumarkaðnum hækkuðu laun verkafólks frá byrjun síðasta árs til janúar síðastliðins mest eða um 13,3%, á móti 8,5% meðalhækkun“. Undir lok greinarinnar dregur hann fram þessar ályktanir: „Búast má við að launafólk á almennum markaði geri þá kröfu – sem varla getur talist ósanngjörn – að það misgengi sem hefur átt sér stað í launaþróun hins opinbera og einkageirans verði a.m.k. jafnað þegar sest verður niður við gerð nýrra kjarasamninga.“ Hér ratast þingmanninum satt orð á munn þótt með öfugum formerkjum sé.“