Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi, sagði í Morgunþætti Miðjunnar, að hún vilji að Kópavogsbær semji við Eflingu hið snarasta.
Sigurbjörg Erla sagði ekki viðunandi að fólk í Eflingu væri á lægri launum sunnan við bæjarmörk Reykjavíkur og Kópavogs og það eigi að skrifa undir samninga í takt við það sem gert var í Reykjavík.
Sigurbjörg Erla benti einnig á að Kópavogur hafi samið við BSRB þar sem félagsmenn þar, sumir hverjir, sinni svipuðum störfum og fólkið sem er í Eflingu. Þetta verði að laga.
Áður en verkfalli Eflingar var frestað stóð Sigurbjörg Erla konu, sem er félagi í Eflingu, að verkfallsbroti. Sú hafði verið fengin til að þrífa sal bæjarstjórnar fyrir bæjarstjórnarfund. Konan sagði að sér hefði verið lofað að fá greitt yfirvinnukaup tæki hún til í salnum.
Sigurbjörg Erla leitaði til Eflingar. Þar var sagt að engin undanþága væri til þrifa á sal bæjarstjórnar.
Á meðan viðkvæmir hópar líða fyrir þjónustuskerðingu og Efling sýnir mikinn sveigjanleika varðandi undanþágur á verkföllum fyrir þá starfsemi sem sinna bráðnauðsynlegri þjónustu, var virkilega verið að að stunda verkfallsbrot til þess að þrífa aðstöðuna fyrir toppana í bæjarstjórn. Ömurlegt.