„Ekkert getur bætt þessa framkomu Biskupsstofu og fræðslunefndar kirkjunnar nema afdráttarlaust samþykki kirkjuþings um að afturkalla þetta efni sunnudagaskóla kirkjunnar og veita biskupi Íslands áminningu um þessa framkvæmd, með ósk um að fræðslunefnd þjóðkirkjunnar og samskiptastjóra hennar, sem í fjölmiðlum hefur rökstutt ákvörðunina, verði sagt upp,“ skrifar séra Halldór Gunnarsson, fyrrverandi sóknarprestur í Holti.
Hann bendir á að æðsta stofnun þjóðkirkjunnar, kirkjuþing, kemur saman 10. september nk. til að samþykkja nýja skipan kirkjumála í framhaldi af viðbótarsamningi ríkisins og kirkjunnar frá 6. september 2019.
„Af því tilefni skora ég á þingfulltrúa að taka til afgreiðslu með afbrigðum á þingsköpum þá ósmekkvísi og trúarbrenglun, sem fræðslunefnd þjóðkirkjunnar á biskupsstofu hefur sett fram sem nýtt efni sunnudagaskólans, með forsíðumynd af Kristi í litum regnbogans, sem varalitaðri konu með brjóst!“
Skrif séra Halldórs er að finna í Mogga dagsins.