„Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í gær tölur um þróun fjölda starfsmanna og launagreiðslna hjá ríkinu og er óhætt að segja að hún sé áhyggjuefni. Í mars árið 2019 voru stöðugildi hjá ríkinu 17.641 en þremur árum síðar voru þau orðin 19.262. Á þessum þremur árum fjölgaði því um 1.621 starfsmann eða rúm 9%,“ segir í leiðara Moggans í gær.
„Í umfjöllun ráðuneytisins kemur fram að stærstur hluti þessarar fjölgunar sé í heilbrigðis- og menntakerfinu, en þar eru líka langflestir starfsmenn ríkisins. Fjölgunin almennt hjá ríkinu er sögð að nokkru leyti tímabundin og sögð tengjast kórónuveirufaraldrinum, sem má teljast umhugsunarvert að hafi enn teljandi áhrif á fjölda ríkisstarfsmanna í mars á þessu ári,“ skrifar Davíð.
„Þá er bent á að um mitt ár í fyrra tók gildi „betri vinnutími í vaktavinnu“ eins og það er orðað, en vinnuvika þeirra sem séu á vöktum hafi styst úr 40 klukkustundum í 36 klukkustundir á viku. Þetta hafi þýtt fjölgun stöðugilda, en eins og fram hefur komið gengu ríkisstofnanir mun lengra í að stytta vinnuvikuna en ástæða var til. Stóri vandinn er þó sá að vinnuvikan hafi verið stytt því að hvorki atvinnulífið né ríkið, hvað þá sveitarfélögin, hafa með góðu móti getu til að standa undir styttingu vinnuviku á sama tíma og umsamin laun hafa hækkað verulega. Þetta voru mistök við gerð kjarasamninga og algert ofmat á getu atvinnulífsins til að standa undir svo hratt vaxandi lífsgæðum, því að staðreyndin er sú að það er á endanum atvinnulífið sem þarf að skapa þau verðmæti sem greidd eru í laun, hvort sem það er í einkageiranum eða hinum opinbera.
Ríkið stendur nú frammi fyrir því að umsvif þess eru orðin of mikil, hvort sem horft er á fjölda starfsmanna eða útgjöld í krónum, en þetta fer vitaskuld mjög saman. Staða sveitarfélaganna, einkum þess stærsta, er enn verri að þessu leyti. Ljóst má vera að snúa verður af þessari braut eigi ekki illa að fara. Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, verður að grípa til aðgerða til að draga úr umsvifunum, þar með talið að fækka starfsfólki. Fjölgun upp á 9% á þriggja ára tímabili er nokkuð sem augljóslega gengur ekki upp og verður að vinda ofan af.“