- Advertisement -

Viljum við klettinn eða kjánana?

sme llSPRENGISANDUR Framsóknarflokkurinn á hug minn, ekki allan, en að sæmilegum hluta þessa stundina. Og það varð áður en forsætisráðherrann hótaði Háskóla Íslands vegna ákvörðunar sem stjórnendur þar á bæ tóku, og sú gengur þvert á vilja forsætisráðherra. Það var annað sem varð til þess að ég hef hugsað mikið til Framsóknar síðustu daga.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur reynt að nálgast sjónarmið Pírata, einstaka áhrifafólk innan Samfylkingar og víðar svo sem, hefur talað og látið að þau séu Píratar í eðli sínu. Og hafi jafnvel alltaf verið. Semsagt, meðal okkar er margt fólk sem langar til, og reynir að stökkva á vinsældarvagninn. En ekki Framsókn. Nei, aldeilis ekki.

Framsókn dekrar ekki við Pírata

Formaðurinn þar og forsætisráðherrann er byrjaður sína kosningabaráttu. Hann stillir sér og flokki sínum upp gegn Pírötum. Óhæddur og notar jafnvel vafasöm vopn í þeirra baráttu. Hjá Framsókn er ekkert dekur við þau vinsælustu. Framsókn ætlar sér að mála skarpar línur á kortið. Kletturinn í hafinu er mættur. Framsókn dregur upp þá mynd af sjálfri sér að þar sé öryggið, traustið, sjálfur kletturinn sem gefur ekkert eftir. Öruggur og áreiðanlegur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Framsókn ætlar vafalaust að sýnast vera festan, öryggið og að þar eigi kjósendur víst skjól gegn ágangi nútímans. Píratar séu á hinn veginn óskaplegir kjánar. Hvað sagði Sigmundur Davíð ekki á viðskiptaþingi:

„Stjórnmálahreyfingum, stjórnmálamönnum og hugmyndafræði af jöðrunum hefur vaxið fiskur um hrygg. Þetta er kallað ýmsum nöfnum, sósíalistar, kommúnistar, þjóðernissinnar og anarkistar. Allir segjast þeir boða eitthvað nýtt í andstöðu við kerfið, gamla spillta kerfið. En þegar betur er að gáð er þetta allt endurvinnsla gamalla hugmynda sem hafa verið margreyndar og alltaf endað illa. Annað sem einkennir þessar hugmyndir, stjórnmálamenn og -öfl sem nú njóta aukins stuðnings er að þau boða einfaldar lausnir, einfaldar en vanhugsaðar.“

Kletturinn talar

Já, forsætisráðherra er í ham. Kletturinn talar. Og hann sagði meira: „Einfaldar lausnir geta verið bestar, jafnvel nauðsynlegar, þar sem þær eiga við. Önnur viðfangsefni kalla á flóknari lausnir en lausnir verða alltaf að vera úthugsaðar og rökréttar.“

Þarna talar forsætisráðherrann skýrt. Hann málar sjálfan sig og sinn flokk upp sem þann sem ræður við hið flókna, meðan Píratar, og aðrir ámóta, ráði aðeins yfir einföldum og vanhugsuðum lausnum. Jafnvel margreyndum sem endi alltaf illa.

Val okkar kjósenda á að vera einfalt út frá þessu. Hvort viljum við Klettinn í hafinu eða það fólk sem er einfalt og vanhugsað. Klettinn eða kjánana.

Sigurjón Magnús Egilsson

Var fluttt í Sprengisandi á Bylgjunni í gær, sunnudag.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: