- Advertisement -

Vilji til að auðga þá ofurríku?

Getur verið að eigendur leynireikninga á Tortóla og í öðrum skattaskjólum hafi nýtt sér þennan fjárfestingakost?

Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður skrifar á bloggsíðu sína eftirtektarverða grein. Þar segir meðal annars:

Jón Magnússon.

„Íslensk stjórnvöld láta alltaf eins og vondu einkunnirnar sem við fáum á alþjóðavettvangi komi þeim á óvart t.d. ónógar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun eiturlyfja og hryðjuverka. Samt vissu stjórnvöld af málinu alla vega ekki síðar en í febrúar 2018
Er ekki mál til komið núna að birta nöfn þeirra aðila sem gátu nýtt sér gjaldeyrisleið Seðlabankans, þar sem menn fengu 20% álag á gjaldeyrinn. Getur verið að Seðlabankinn og íslensk stjórnvöld hafi verið svo gírug í gjaldeyrinn og viljug til að auðga þá ofurríku að ekki hafi verið spurt með neinum virkum hætti að uppruna fjármagnsins sem Seðlabankinn keypti. Komu þeir fjármunir t.d. frá Tortóla og öðrum skattaskjólum?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sjá grein Jóns:

Guð hvað þetta kemur á óvart

Þegar íslensk stjórnsýsla stendur sig ekki og fær falleinkunn í hvaða máli sem er, þá er viðkvæðið jafnan, að þetta komi á óvart og slæma umsögnin eða einkuninn eigi ekki rétt á sér. Erlendu aðilarnir hafi ekki skilið að þetta vonda eigi alls ekki við okkur.

Alltaf er látið eins og hlutirnir detti hreinlega ofan í höfuðið á ráðamönnum og embættismönnum eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Síðasta tilbrigðið við þetta stef eru viðbrögð dómsmálaráðherra og annarra ráðamanna íslenskra vegna þess að við erum í fjármálalegri lausung og peningaþvætti í hópi með löndum eins og Zimbabwe og örfáum öðrum sem uppfylla ekki skilyrði um skilvirkt eftirlit með peningaþvætti, eiturlyfjasölu og hryðjuverkum.

Skv. skýrslu FATF alþjóðlega starfshópsins um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka kemur í ljós, að athugasemdir við aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda í þessum efnum eru ekki nýjar af nálinni. Athugasemdirnar hafa legið fyrir frá árinu 2017 og jafnvel fyrr. Íslenskum stjórnvöldum var í febrúar 2018 gefinn kostur á að bæta úr stöðunni, sem hefur tekist að nokkru leyti, en þó skortir verulega á, þannig að Ísland er í hópi örfárra landa sem fær falleinkunn FATF varðandi ónægt eftirlit með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Þar sem Ísland var ekki sett á þennan ljóta lista fyrr en eftir að hafa átt möguleika á að bæta úr stöðunni en gerði ekki með fullnægjandi hætti, þá þýðir ekki fyrir stjórnvöld og ráðherra dómsmála að láta sem þetta sé bara eins og þetta sé allt í plati og komi fólki jafnmikið á óvart og þegar eplið datt á hausinn á Isaac Newton forðum.

Eðlilegt er að almenningur leiti skýringa af þegar skýringar koma ekki frá stjórnvöldum. Ein skýring sem sett hefur verið fram er að hluti af vandanum stafi frá svonefndri gjaldeyrisleið Seðlabanka Íslands, sem þáverandi Seðlabankastjóri setti í gang með velvilja ríkisstjórna, en hún gekk út á það að fólk gat selt erlendan gjaldeyri og fengið 20% álag á gjaldeyrinn. Góður kostur það allt í einu varð milljónin að tólf hundruð þúsund og hagnaðurinn eftir því meiri sem meira var selt af erlendum gjaldeyri.

Ekki liggur fyrir hvort þeir sem vildu selja gjaldeyri skv. þessari leið þurftu að gefa viðhlítandi upplýsingar um uppruna erlenda gjaldeyrisins. Miðað við lýsingu eins stjórnanda Seðlabankans, sem nýtti sér þessa leið, en sú sat áður í Rannsóknarnefnd Alþingis, þá vissi hún aðspurð upphaflega ekki hvað hún hefði selt mikinn gjaldeyri eða hver uppruni hans var.

Hverjir voru það sem nýttu sér þessa gróðavænlegu fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Ekki voru það þeir, sem hafa stritað alla sína ævi hér á landi og fengið greitt í íslenskum krónum.

En hverjir voru það? Það fæst ekki uppgefið.

Getur verið að eigendur leynireikninga á Tortóla og í öðrum skattaskjólum hafi nýtt sér þennan fjárfestingakost. Getur verið að starfsmenn íslensku utanríkisþjónustunnar hafi nýtt sér þennan fjárfestingakost. Getur verið að Seðlabankinn hafi verið svo gírugur í að ná erlendum gjaldeyri inn í landið að ekki hafi í raun þurft að gefa neinar handbærar skýringar á uppruna fjármunanna.

Þess hefur verið krafist m.a. af þeim sem þetta ritar, að gefið verði upp hverjir nýttu sér þessa fjárfestingaleið og auðguðust með aðgerðum sem íslensku almúgafólki stóð ekki til boða. Nú hlítur krafan líka að vera að Seðlabankinn gefi ekki bara upp nöfn þeirra aðila sem nýttu sér þessa fjárfestingaleið, heldur líka hvaða skýringar ef þá nokkrar hafi verið gefnar á uppruna fjármagnsins.

Nauðsynlegt er að þessar upplýsingar verði gefnar. Ekki sérstaklega vegna þess að við skulum vera komin á svarta listann sem íslensk stjórnvöld segja gráan. Miklu frekar vegna þess, að þetta eru upplýsingar sem eiga erindi til almennings og skipta máli í lýðræðislegri umræðu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: