„Í komandi kjaralotu mun óhjákvæmilega reyna mikið á embætti ríkissáttasemjara. Líkt og fráfarandi ríkissáttasemjari getur borið um er það vandi, ekki síst þegar við eigast fyrirferðarmiklir forsvarsmenn viðsemjenda.“
Þetta er úr leiðara Moggans í dag. Þar á bæ er barátta í gangi gegn samtökum launafólks. Fyrst og fremst er vilji til að setti verði lög í landinu, lög sem gefi sáttasemjara miklu meira vald en hann hefur nú. Vald til grípa inn í kjaradeilur og jafnvel stöðva þær. Mogginn segir:
„Þá er nauðsynlegt að sáttasemjarinn hafi réttu verkfærin í kistu sinni til þess að halda þeim við efnið, knýja að samningaborðinu eða bera samningsdrög milliliðalaust undir launþega og fyrirtæki, ef samningamenn hafa grafið sig of djúpt í skotgrafirnar.
Liðinn vetur dæmdi Landsréttur hins vegar að ríkissáttasemjari hefði hreint ekki þau verkfæri sem hann og allir aðrir höfðu áratugum saman haldið. Við það fór starf ríkissáttasemjara út um þúfur og hann lét ekki löngu síðar af embætti. Röð umsækjenda var ekki löng.
Flestir litu svo á að Landsréttur hefði leitað uppi lagatæknilegan óskýrleika, sem löggjafinn þyrfti þá að laga.“
Málaflokkurinn heyrir undir varaformann Vinstri grænna, Guðmund Inga Guðbrandsson. Hann á í vanda. Freki samstarfsflokkurinn vill ólmur að þetta mál verði klárað sem fyrst. Guðmundur Ingi og VG eiga kannski ekki gott með að ganga erinda SA og Sjálfstæðisflokksins. Yrði aumt fyrir ráðherrann og flokkinn hans að stórskaða baráttu launafólks um langa framtíð.
Aftur í leiðarann:
„Það töldu menn að myndi gerast hratt og örugglega hjá nýbökuðum vinnumarkaðsráðherra; ekki síst þar sem að í stjórnarsáttmála hafði verið sérstaklega vikið að því að styrkja ætti hlutverk ríkissáttasemjara, bæta verklag við kjaraviðræður og tryggja að þær drægjust ekki úr hófi.
Það reyndist nú öðru nær, því hinum vinnulúna vinnumarkaðsráðherra auðnaðist ekki einu sinni að leggja fram frumvarp þar að lútandi í vor, hvað þá að koma því í gegn áður en samningalotan hæfist af alvöru.
Eins og lesa mátti um í frétt Morgunblaðsins í gær bendir ekkert til þess að Guðmundur Ingi Guðbrandsson vinnumarkaðsráðherra ætli að gera neitt í málinu í haust heldur. Hann sagði að málið væri í skoðun, en „mögulega“ yrði lagt fram slíkt frumvarp í haust. Aðeins þó ef frumvarpið væri verkalýðshreyfingunni að skapi, líkt og hún sé með neitunarvald, bæði við ríkisstjórnarborðið og á hinu háa Alþingi!
Það er fráleitt viðhorf út af fyrir sig, en verra er tómlæti ráðherrans og aðgerðaleysi gagnvart þeim vanda sem blasir við þjóðfélaginu í haust.
Það er ekki lengur værukærð heldur vanræksla.“