- Advertisement -

Vilja takmarka vald ráðherra

- þingflokkur Samfylkingarinnar vill koma í veg fyrir aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.

Stjórnmál Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt frumvarp á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir að heilbrigðisráðherra geti ekki einn og sér gert samninga um einkareknar heilsgæslustöðva eða annarra heilbrigðisstofnanna.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að alþingi verði að samþykkja samninga um slíkt. „Í því felst að ráðherra, eða eftir atvikum aðrir þingmenn, leggi fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar þar sem ráðherra verði falið að ganga til samninga um rekstur tiltekinnar heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar, einnar eða fleiri, og að í ályktuninni verði markaður skýr rammi utan um það umboð sem ráðherra hefur til samningsgerðarinnar hverju sinni,“ segir í greinagerðinni.

Þingflokkur Samfylkingar hefur áhyggjur af því hvert stefnir að þeirra mati. „Að undanförnu hefur komið fram að stefna ríkisstjórnarinnar er að færa sífellt meira af grunnstoðum velferðarkerfisins í einkarekstur. Að mati flutningsmanna verður ekki við það unað enda þarf að virða vilja mikils meiri hluta þjóðarinnar um að grunnþjónusta, líkt og heilbrigðisþjónusta, verði veitt af hinu opinbera. Tryggja þarf að einkaaðilar fleyti ekki rjómann í samningum við hið opinbera á þann veg að þeir fái greitt án þess að axla sambærilegar skyldur og opinberir aðilar þurfa að gera,“ segir í greinagerð með frumvarpinu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: