Vilja svör um veislu í Höfða
Ráðhúsið / „Fulltrúar minnihlutans sameinuðust í fyrirspurn um móttöku sem haldinn var í Höfða 1. nóvember 2019 vegna samgöngusáttmála en veislan kostaði rúma hálfa milljón, gestir voru 32. Spurt var hverjum var boðið og hver ákvað að þessi veisla var haldinn?“
Þetta segir Kolbrún Baldursdóttir, Flokki fólksins.
Kolbrúnu finnst að hér hafi verið farið of bratt í fjárútlátum vegna matar og drykkjar sérvalinna einstaklinga og hún lagði fram eftirfarandi bókun: „Í svari kemur fram að í þennan kvöldverð voru boðnir ráðherrar, borgarstjóri, bæjarstjórar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem og það starfsfólk sveitarfélaganna sem kom að verkefninu og oddvitar meirihlutans í borgarstjórn ásamt formanni skipulags- og samgönguráðs, forstjóra Vegagerðarinnar, framkvæmdastjóra SSH og verkefnastjóra Borgarlínunnar. Starfsfólk ráðuneytanna voru átta talsins og starfsfólk sveitarfélaganna sem höfðu unnið að gerð sáttmálans voru átta talsins.“
Kolbrún furðar sig á matarboðinu sem kostaði rúma hálfa milljón, matur og drykkir. „Hér hefði átt að gæta meira hófs enda verið að eyða peningum borgarbúa. Sá samgöngusáttmáli sem þarna var verið að fagna er umdeildur og mun kosta borgarbúa mikið fé. Verið er að koma einu enn byggðasamlagsverkefninu í gang þar sem „minnihlutar“ í sveitarfélögunum hafa enga aðkomu að. Reynsla byggðasamlagskerfa er ekki góð samanber reynslan af Sorpu. Í þeim ríkir lýðræðishalli þar sem fulltrúar í stjórnum eru ekki í hlutfalli við kjósendur.“