- Advertisement -

Vilja stofnanir í tvíriti

- formaður Framsóknarflokksins er lítt hrifinn að hugmyndum ferðamálaráðherra, sem hann segir vilja fjölga stofnunum án ástæðu. Framsókn skipar hóp til að móta stefnu til framtíðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, er ekki spenntur fyrir hugmyndum Þórdísar Kolbrúnar Reykdal Gylfadóttur ferðamálaráðherra um að setja á stofn það sem ráðherrann kýs að nefna litlu Hafró.

„Ráðherra ferðamála vill fjölga stofnunum við stjórnsýsluna,“ segir Sigurður Ingi. „Skilja má ráðherra á þann veg að ný stofnun sé nauðsynleg til að hægt sé að taka ákvarðanir um takmörkun á aðgengi ferðamanna að viðkvæmum svæðum í náttúru Íslands.“

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Framsókn ætlar að móta tillögur um ferðaþjónustuna og segir ákvarðanir vanta.

Sigurður Ingi segir að í stað þess að einhenda sér í að móta stefnu til lengri tíma, tryggja sjálfbærni ferðaþjónustunnar sem byggir á þeirri vitneskju, „…sem við höfum meðal okkar fagfólks, þá er ráðleysið slíkt að aftur eigi að búa til eitthvað nýtt. Er þörf á „lítilli Hafró“, eins og ráðherra kýs að kalla hana? Að mínu mati væri nærtækara að styrkja þann faglega grunn sem nú þegar er fyrir hendi og efla rannsóknir enn frekar innan þeirra stofnana sem sjá um þessi mál, a.m.k. á meðan ekki er til sérstakt ráðuneyti ferðamála.“

Stefnuleysið er til skaða

Framsóknarflokkurinn hefur skipað í hóp sem á að vinna að stefnumótun fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu. „Ákvarðanir um einstök mál hafa setið á hakanum of lengi. Til að mynda hvernig hægt er að ná meiri dreifingu ferðamanna um landið og hvort taka eigi gjald á ferðamannasvæðum eða ekki,“ segir í bréfi Framsóknarflokksins.  Þar segir einnig: „Ör vöxtur og stefnuleysi í ferðaþjónustu getur auðveldlega haft neikvæð áhrif á efnahags- og umhverfislega þætti. Brýnt er því að móta framtíðarstefnu sem byggir á sérstöðu landsins, náttúrunni, sameiginlegri sögu og menningu. Vandamálin eru fjöldamörg. Auknar líkur eru á því að arðsemi minnki og fleiri láglaunastörf verði til í landinu ef ferðamönnum fjölgar meira en hægt er að sinna með góðu móti. Við ofnýtingu auðlinda er hætt við því að einsleit ferðamennska fylgi í kjölfarið með ferðamönnum sem hafa lægri kaupmátt en ella. Sérhæfingu og fjölbreytni starfa yrði ógnað í ferðaþjónustu sem og öðrum útflutningsgreinum. Ef ferðamönnum fækkar þá óhjákvæmilega fækkar störfum sem kemur verst niður á landsbyggðinni.“

Ekki vantar flækjustigið

Þá aftur að orðum formanns Framsóknarflokksins. „Umtalsvert flækjustig er í málaflokknum. Hugmynd ráðherra væri ágæt ef ekki væru nú þegar til stofnanir sem hafa umsjón með þessu verkefni, en Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Ferðamálastofa og Rannsóknarmiðstöð ferðamála sjá um rannsóknir, vöktun, gagnaöflun og ákvarðanatöku með einum eða öðrum hætti.“

Er þetta þá óþarft?

„Ég veit ekki betur en að Umhverfisstofnun styðjist við gögn frá fagfólki og birti rauða og appelsínugula lista yfir svæði, sem eru í hættu vegna átroðnings. Umhverfisstofnun hefur auk þess heimild til að loka og taka gjald fyrir veitta þjónustu á náttúruverndarsvæðum. Skyldi ráðherra umhverfis- og auðlindamála vera samþykkur því sem ferðamálaráðherra boðar?“

Og hann heldur áfram: „Ferðamálastofa, sem er á ábyrgð ferðamálaráðherra, fór í umfangsmikla stefnumótunarvinnu síðastliðið haust. Þessi ágæta stofnun starfar eftir metnaðarfullri framtíðarsýn til að tryggja faglega umgjörð og sinnir m.a. gagnaöflun og rannsóknum í ferðaþjónustu, svo hægt sé að taka góðar og réttmætar ákvarðanir. Rannsóknarmiðstöð ferðamála hefur það að markmiði að efla rannsóknir á sviði ferðamála. Að henni standa nokkrir háskólar, Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofa. Við þetta bætist Stjórnstöð ferðamála sem hefur þann tilgang að samhæfa stjórnsýslu ferðaþjónustunnar og halda utan um brýn verkefni.“

Og Sigurður Ingi endar með þessari spurningu:

„Er flækjustigið ekki nóg?“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: