- Advertisement -

Vilja skattleggja gróða lóðabraskara og verktaka

Sósíalistar segja byggingaréttargjald koma verst við þau fátækustu. „17 þúsund krónur í of háa húsaleigu er alvarlegt mál fyrir fólk sem er að reyna að komast af út mánuðinn á rúmlega 200 þúsund krónum.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista, mun leggja fram þá tillögu á fyrsta fundi nýkjörinnar borgarstjórnar að Reykjavíkurborg eyði verðhækkunaráhrifum byggingarréttargjalds á félagslegar íbúðir og íbúðir sem byggðar eru af óhagnaðardrifnum leigufélögum. Hingað til hefur verið lagt 45 þúsund króna byggingarréttargjald á hvern fermetra þessara íbúða og kemur það að stóru leyti á móti því 12 prósent stofnframlagi sem borgin leggur til byggingarsamvinnufélaga. „Því má segja að borgin leggi lítið sem ekkert til uppbyggingar íbúða sem ætlaðar eru fólki sem getur ekki keypt eða leigt á hinum óhefta markaði,“ segir Sanna. „Það sem borgin leggur til fer að mestu í að borga gjöld til borgarinnar, til dæmis lóða- og byggingarréttargjöld.“

Sanna bendir á að flatt 45 þúsund króna byggingarréttargjald sé óréttlát skattheimta. Af verði 70 fermetra íbúðar, sem kostar 25 milljón króna, er byggingarréttargjaldið rúmlega 3,1 milljón króna eða 12,6 prósent af verðinu. Gjaldið vegur miklum mun minna í verði lúxusíbúða. Svo dæmi sé tekið eru nýkomnar í sölu dýrar lúxusíbúðir við Tryggvagötu. Það kostar 166 fermetra íbúð 143 milljónir króna. Af því er byggingarréttargjaldið tæpar 7,5 milljónir króna eða rúmlega 5 prósent af verðinu.

Aðrir flokkar í minnihluta borgarstjórnar hafa boðað tillögur um afnám byggingarréttargjaldsins á allar íbúðir. Það vilja sósíalistar ekki gera. „Það er sjálfsagt mál að leggja gjald á byggingarréttinn á dýrum lóðum þar sem byggðar eru lúxusíbúðir,“ segir Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi sósíalista. „Með því er borgin að skattleggja gróða lóðabraskara og verktaka, sem vilja hagnast á vel byggingu hótelíbúða fyrir ferðamenn eða á sölu lúxusíbúða til hinna ríku. Sá kaupendahópur er miklu síður viðkvæmur fyrir verðhækkunum en hin verst settu sem munu kaupa eða leigja félagslegt húsnæði og húsnæði sem byggt er upp af byggingarsamvinnufélögum.“

Í greinargerð með tillögunni taka þau dæmi af fólki sem leigir húsnæði sem hefur hækkað um 45 þúsund krónur fermetrinn vegna byggingarréttargjaldsins. Þar segir að miðað við lægstu vexti í dag megi ætla að þetta gjald hækki húsleigu 70 fermetra íbúðar um 17-20 þús. kr. á mánuði. Hér er miðað við lægstu vexti lífeyrissjóða til sinna félagsmanna. Þetta gjald er skattlagning á verst settu íbúa borgarinnar, þau sem uppbygging óhagnaðardrifinna leigufélaga og félagslegs íbúðakerfis er ætlað að bæta lífskjörin hjá. Með þessu gjaldi er borgin því að skerða lífskjör hinna verst stæðu innan kerfis sem í fljótu bragði virðist ætlað að bæta kjör þeirra, segir í greinargerðinni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„17 þúsund krónur í of háa húsaleigu er alvarlegt mál fyrir fólk sem er að reyna að komast af út mánuðinn á rúmlega 200 þúsund krónum,“ segir Sanna. „17 þúsund krónur á mánuði eru yfir 200 þúsund krónur á ári og yfir 8 milljónir króna á þeim tíma sem tekur að greiða niður lán til 40 ára.“

Eins og áður sagði leggja sósíalistar það ekki til að byggingarréttargjaldið verði afnumið heldur að borgin eyði verðlagsáhrifum þess á félagslegar íbúðir og byggingar á vegum óhagnaðardrifinni leigufélaga. „Það má til dæmis gera með því að hækka þetta gjald almennt en auka svo á móti stofnframlag borgarinnar til íbúða sem ætlaðar eru hinum verr stæðu,“ segir Daníel. „Með því yrðu gjöld hækkuð á hinum betur stæðu en lækkuð á hinum verr stæðu. Það gengur ekki að aðeins hin verr stæðu borgi framlag Reykjavíkur til uppbyggingar félagslegs húsnæðiskerfis heldur ætti það að vera verkefni allra borgarbúa og þá sérstaklega hinna efnameiri og að ekki sé talað um lóðabraskara og verktaka.“

Til að gefa dæmi um hvernig þessi breyting kynni að líta úr má taka ímyndað dæmi. Ef 25 prósent nýrra íbúða er innan félagslega kerfisins og þær eru almennt minni en þær íbúðir sem byggðar eru á hinum óhefta markaði, til dæmis 50% minni að meðaltali, þá mætti fella út verðáhrif byggingarréttargjaldsins á félagslegar íbúðir með því að hækka gjaldið á aðrar íbúðir úr 45 þúsund krónum í 53 þúsund krónur á fermetra.

„Íbúðin við Tryggvagötu sem tekið var dæmi af áðan myndi þá ekki kosta 143 milljónir króna heldur 144,3 milljónir,“ segir Daníel. „Auðvitað er þetta aðeins ímyndað dæmi og það má vera að niðurstaðan verði öðruvísi þegar búið er að útfæra þetta út í hörgul, en þetta dæmi ætti að gefa ágæta mynd af því hvernig þetta er hugsað.“

Þau Daníel og Sanna benda á að flatt byggingarréttargjald sem leggst jafnt á allar íbúðir og án tillits til þess hvort þær séu byggðar upp af óhagnaðardrifnum félögum eða til að skapa lóðabröskurum og verktökum sem mestan hagnað, sé í takt við skattabreytingar nýfrjálshyggjuáranna. Það er ekki svo langt síðan að hér voru lagðir á eignaskattar, sem lögðust á hreina eign og þar af leiðandi þyngst á þá sem áttu mest og voru helst aflögufærir. Eignaskattar voru lagðir af, og síðan þá hafa fasteignagjöld hækkað mikið og allskyns gjöld á byggingar eins og byggingarréttargjald, lóðagjöld, innviðagjöld og fleira. Allt eru þetta flöt gjöld sem leggjast jafnt á alla og án tekjujöfnunar eða annara aðgerða til að dreifa byrðunum jafnar á íbúanna. Fasteignagjöld leggjast jafnt á eign og skuldir, svo sá sem býr í skuldlausri íbúð borgar jafn há fasteignagjöld og sá sem býr í sambærilegri íbúð en skuldar hana alla, á ekki neitt í henni.

„Það er ekki margt sem borgarstjórn getur gert til að leiðrétta eyðileggingu nýfrjálshyggjunnar á skattkerfinu,“ segir Sanna. „Það er Alþingi sem setur lög um útsvar og þá skatta sem sveitarfélögin mega leggja á. En Reykjavíkurborg á að krefja Alþingi um réttlátar breytingar á skattkerfinu, öðruvísi er ekki hægt að byggja upp réttlátt samfélag í borginni. En Reykjavík á líka að haga innheimtu sinni á gjöldum svo að það skaði síst hin verst settu. Eins og staðið er að málum í dag á það ekki við um innheimtu byggingarréttargjalds af byggingum óhagnaðardrifinna leigufélaga. Þessu verður að breyta.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: