„Afskipti forystumanna í verkalýðshreyfingunni af lífeyrissjóðunum er alvarlegt vandamál sem nauðsynlegt er að tekið sé til skoðunar. Um leið gefur það ástæðu til að endurmeta hve hátt hlutfall sparnaðar fer í hefðbundinn skyldulífeyrissparnað, eins og Sigurður bendir á. Eðlilegt er að skoða hvort ekki sé ástæða til að stærri sneið fari í séreignarsparnaðinn,“ þannig er lokakafli Staksteina Davíðs í dag.
Það er bara svona. Davíð vitnar til greinar eftir Sigurð Má Jónsson blaðamann.
„Sigurður Már Jónsson blaðamaður ritar pistil um völd og áhrif lífeyrissjóðanna á mbl.is. Hann bendir á að stærð sjóðanna sé gríðarleg og að þeir séu í lykilhlutverki á íslenskum hlutabréfamarkaði með um helming alls hlutafjár í Kauphöllinni og að auki yfirgnæfandi á skuldabréfamarkaði. „Þó að fjárfestingar þeirra eigi fyrst og fremst að taka mið af ávöxtun til að tryggja sjóðfélögum sínum lífeyri í ellinni virðast margir freistast til að líta á þá sem valdatæki til að ná fram pólitískum markmiðum sínum,“ segir Sigurður.“ Sigurður Már heldur áfram: „Það er hægt að taka undir með þeim sem gagnrýna Fjármálaeftirlitið fyrir að hafa ekki brugðist við og tekið á þessum skuggastjórnendum sem birtust með heldur augljósum hætti í aðdraganda útboðs Icelandair. Nema eftirlitið kjósi að taka þetta ekki alvarlega í ljósi þess að viðkomandi séu hvort sem er lítt marktækir! Það hlýtur að kalla á sérstaka rannsókn að stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna skyldi ekki taka þátt í útboðinu, sérstaklega þegar horft er til fjölda sjóðfélaga hjá félaginu og mikilvægi þess fyrir atvinnulíf í landinu. Það eitt kallar ekki á þátttöku en hjásetan þarf að byggja á málefnalegum forsendum.“
Ekki er unnt að skilja þá félaga, Davíð Oddsson og Sigurð Má Jónsson, á annan veg en þeir kalli eftir rannsóknum, einkum á Ragnari Þór Ingólfssyni formanni VR og Sólveigu Önnu Jónsdóttur formanni Eflingar.