- Advertisement -

Vilja lyfta höftum af þjóðsöngnum

„Flutningsmenn telja enga ástæðu til að takmarka rétt almennings til nýtingar á þessari eign sinni í viðskipta eða auglýsingaskyni. Enn fremur er engan rökstuðning fyrir þessu fyrirkomulagi að finna í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum um þjóðsöng Íslendinga,“ segir í greinargerð með lagafrumvarpi þar sem gert er ráð fyrir meira frelsi hvernig farið verður með þjóðsöng Íslendinga.

Þingmennirnir telja að ekki sé á nokkurn hátt misnotkun á þjóðsöngnum né vanvirðing gagnvart honum að flytja hann í annarri mynd en þeirri upprunalegu, né að hann sé notaður í viðskipta eða auglýsingaskyni. „Þjóðsöngur Íslendinga er hluti af sameiginlegri menningararfleifð landsmanna allra og telja flutningsmenn að yrði hann nýttur í nýjum listaverkum eða fluttur á frumlegan hátt yrði það honum til framdráttar en ekki minnkunar. Óháð því mati telja flutningsmenn frumvarpsins óverjandi með öllu að refsing liggi við.“

Eins segir í greinargerðinni: „Sem fyrr greinir kemur fram í 2. gr. laganna að íslenska þjóðin sé sjálf eigandi þjóðsöngsins. Að mati flutningsmanna er slíkt fyrirkomulag eðlilegt, en hins vegar telja flutningsmenn mikla mótsögn fólgna í því að sama löggjöfin tryggi fyrrnefnt eignarhald, en hóti síðan sektum og fangelsisvist ef hluti af þeirri sömu þjóð birtir eða flytur þjóðsönginn, sína eigin eign, öðruvísi en í upprunalegri mynd. Ef eignarhald yfir tónverkinu veitir ekki heimild til þess að fara með það eins og þeim sama eiganda sýnist verður að spyrja að því nákvæmlega hvað felist í eignarhaldinu. 2. gr. laganna bannar einnig notkun þjóðsöngsins í viðskipta eða auglýsingaskyni.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þingmennirnir eru: Helgi Hrafn Gunnarsson, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson og Jón Steindór Valdimarsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: