- Advertisement -

Vilja lyfta höftum af þjóðsöngnum

„Flutningsmenn telja enga ástæðu til að takmarka rétt almennings til nýtingar á þessari eign sinni í viðskipta eða auglýsingaskyni. Enn fremur er engan rökstuðning fyrir þessu fyrirkomulagi að finna í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum um þjóðsöng Íslendinga,“ segir í greinargerð með lagafrumvarpi þar sem gert er ráð fyrir meira frelsi hvernig farið verður með þjóðsöng Íslendinga.

Þingmennirnir telja að ekki sé á nokkurn hátt misnotkun á þjóðsöngnum né vanvirðing gagnvart honum að flytja hann í annarri mynd en þeirri upprunalegu, né að hann sé notaður í viðskipta eða auglýsingaskyni. „Þjóðsöngur Íslendinga er hluti af sameiginlegri menningararfleifð landsmanna allra og telja flutningsmenn að yrði hann nýttur í nýjum listaverkum eða fluttur á frumlegan hátt yrði það honum til framdráttar en ekki minnkunar. Óháð því mati telja flutningsmenn frumvarpsins óverjandi með öllu að refsing liggi við.“

Eins segir í greinargerðinni: „Sem fyrr greinir kemur fram í 2. gr. laganna að íslenska þjóðin sé sjálf eigandi þjóðsöngsins. Að mati flutningsmanna er slíkt fyrirkomulag eðlilegt, en hins vegar telja flutningsmenn mikla mótsögn fólgna í því að sama löggjöfin tryggi fyrrnefnt eignarhald, en hóti síðan sektum og fangelsisvist ef hluti af þeirri sömu þjóð birtir eða flytur þjóðsönginn, sína eigin eign, öðruvísi en í upprunalegri mynd. Ef eignarhald yfir tónverkinu veitir ekki heimild til þess að fara með það eins og þeim sama eiganda sýnist verður að spyrja að því nákvæmlega hvað felist í eignarhaldinu. 2. gr. laganna bannar einnig notkun þjóðsöngsins í viðskipta eða auglýsingaskyni.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þingmennirnir eru: Helgi Hrafn Gunnarsson, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson og Jón Steindór Valdimarsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: