Inga Sæland, og þingflokkurinn, hennar vilja leyfa hunda og ketti í sameignarhúsum. Nú þarf meirihluta samþykki meirihluta íbúðareigenda en í frumvarpi Ingu er gert ráð fyrir að ekki þurfi samþykki til að halda hunda eða ketti.
Verði ónæði af dýrahaldinu er gert ráð fyrir að samþykki 2/3 íbúðareigenda þurfi til að banna viðkomandi að vera með dýr í húsinu.
Í lok greinargerðar með frumvarpinu segir:
Það tók 78 ár að leyfa hundahald í Reykjavík. Látum það ekki bíða í 78 ár að leyfa hunda- og kattahald í fjöleignarhúsum. Frumvarp þetta er einfalt í sniðum og felur í sér breytingar á þeim ákvæðum laga um fjöleignarhús sem fjalla um hunda- og kattahald. Lagt er til að hunda- og kattahald verði ekki háð samþykki annarra eigenda. Engu að síður getur húsfélag sett reglur um gæludýrahald, enda séu þær eðlilegar, málefnalegar og á jafnræði reistar. Þannig geta íbúðareigendur sammælst um fyrirkomulag gæludýrahalds en girt er fyrir að slíkar reglur gangi svo langt að þær útiloki gæludýrahald í raun. Þá verður húsfélögum áfram heimilt að leggja bann við dýrahaldi ef það veldur öðrum íbúum verulegum ama, ónæði og truflunum og eigandi dýrs neitar að gera bót þar á, en lagt er til að leita þurfi samþykkis 2/ 3 hluta eigenda í stað meiri hluta. Ekki eru gerðar efnislegar breytingar á 33. gr. g, um sameiginlegar reglur um dýrahald í fjöleignarhúsum, eða 33. gr. h, um leiðsögu- og hjálparhunda.
Frumvarpið er á dagskrá Alþingis í dag.