„Formleg kristnifræðikennsla á Íslandi þar sem kristinfræði var kennd sem sérstakt fag stóð frá miðri 16. öld til ársins 2008 eða í tæp 460 ár. Frá árinu 2008, við gildistöku nýrra grunnskólalaga, hefur kristinfræði verið kennd sem hluti af trúarbragðafræðslu, ekki sem sérstakt fag,“ sagði Birgir Þórarinsson Miðflokki.
„Æska landsins á rétt á að fá að kynnast trúarbrögðunum sem mótuðu það samfélag sem við búum í. Saga landsins og kristni er að mörgu leyti samofin, þess vegna á kristinfræðin að njóta sérstöðu innan veggja grunnskólanna. Eðlilegt er að hún sé því í forgrunni í kennslu trúarbragða og vegna tengsla trúarinnar við sögu Íslands og menningu. Tengslin, frú forseti, eru menningarleg, söguleg og félagsleg. Okkur ber að kynna áhrifin sem kristnin hefur haft á samfélag okkar. Eðlilegt er því að fræða sérstaklega um ríkjandi trú landsins. Það gerir nemendur læsa á íslenska og vestræna menningu og menningararf.“