„Við lok árs 2016 var verðbréfaeign heimilanna aðeins um 8,5% af heildareignum og hefur ekki mælst minni frá því að mælingar hófust. Hæst fór hlutfallið í ríflega 14% árið 2007 en féll niður í 8,6% við fjármálahrunið 2008 og hefur ekki náð sér á strik síðan,“ þetta er hluti af greinargerð frumvarps þingmanna Sjálfstæðisflokksins þar sem gert er ráð fyrir skattaafslætti hætti heimilin í landinu sparnaði sínum í áhættufjárfestingar.
„Verðbréfaeign heimila er ekki aðeins lítil í sögulegum samanburði heldur einnig í norrænum samanburði líkt og sést á meðfylgjandi mynd en verðbréfaeign íslenskra heimila er um helmingi minni en verðbréfaeign sænskra heimila, svo að dæmi sé tekið,“ segir þar einnig.
Þingmennirnir vilja nota skattafslátt sem beitu í von um að fólk bíti á:
„Skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa, hvort heldur sem er í sjóðum eða stökum hlutabréfum, hvetur til aukins sparnaðar af hálfu heimila ásamt því að búa til meiri dýpt á markaði með fjölgun þátttakenda og því fjármagni sem þeim fylgir. Slík fjölgun getur liðkað fyrir viðskiptum með því að auka seljanleika og þannig dregið úr flökti á markaði ásamt því að auka möguleika fyrirtækja til fjármögnunar. Skattafslátturinn hvetur heimilin til þátttöku í atvinnurekstri og tvinnar því saman hagsmuni þeirra og atvinnulífs, sem leitt getur til meiri meðvitundar meðal almennings um stöðu hagkerfisins og þeirra afleiðinga sem breytingar í rekstrarumhverfi fyrirtækja, t.d. skattabreytingar eða almenn launaþróun, kunna að hafa í för með sér. Við þetta má bæta að afslátturinn hvetur einnig til þess að heimilin nýti sér þær sparnaðarleiðir sem þeim standa til boða, að teknu tilliti til áhættu og ávöxtunar, og nýti sér möguleikann á frekari áhættudreifingu,“ segja þingmenn Sjálfstæðisflokksins í greinargerðinni.