„Í lögum um þingsköp Alþingis er hins vegar ekki kveðið á um afleiðingar þess að upplýsingaskyldan sé virt að vettugi. Þá er ekki fjallað sérstaklega um almenna sannleiksskyldu ráðherra í upplýsingagjöf til Alþingis, óháð því hvort upplýsingar hafi verulega þýðingu fyrir mat þingsins á máli sem er til meðferðar.“
Þetta segir meðal annars í greinargerð með nýju lagafrumvarpi nokkurra stjórnarandstöðu þingmanna um aukna ábyrgð ráðherra. Nokkur nýleg dæmi eru um að ráðherrar hafi leynt gögnum fyrir þinginu. Stungið skýrslum undir stól.
„Til að Alþingi geti rækt eftirlitshlutverk sitt er nauðsynlegt að þær upplýsingar sem ráðherrar leggja fyrir þingið séu nægilegar, réttar og greinargóðar. Það er auk þess grunnforsenda þess að þingmenn geti rækt skyldur sínar samkvæmt stjórnarskrá að þeir fái réttar upplýsingar til þess að byggja ákvarðanatöku sína á. Í niðurstöðum vinnuhóps um siðferði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið var lögð áhersla á mikilvægi upplýstra skoðanaskipta og rökræðna fyrir aukið aðhald þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Grundvallarforsenda upplýstrar umræðu eru réttar og greinargóðar upplýsingar. Þá getur skortur á upplýsingagjöf leitt til trúnaðarbrests milli þings og ráðherra. Til að undirstrika mikilvægi upplýsingaskyldu ráðherra til Alþingis er í frumvarpi þessu lagt til að brot gegn henni, í formi rangra eða villandi upplýsinga eða leynd upplýsinga er hafa verulega þýðingu við meðferð máls, varði viðurlögum samkvæmt almennum skilyrðum laga um ráðherraábyrgð,“ segir og í greinargerðinni.