Björgvin Guðmundsson skrifar:
Hvað eru lágmarkslaun verkafólks í dag há? Hvað er það mikið sem atvinnurekendur með stuðningi KJ telja nægilegt fyrir verkafólk og vilja helst að sé óbreytt eða hækki um 1,2%. Það eru 300 þús á mánuði, sem mundu hækka í 303600 kr á mán við tilboð SA.
Í dag eru þetta 235 þús kr eftir skatt og mundi hækka í 240 þús kr á mán eftir skatt, ef hungurlúsin næði fram að ganga. Menn beri þetta saman við ofurlaun þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna,sem ég hef sagt frá undanfarið.
Þessi stefna SA og KJ er hættuleg okkur eldri borgurum og öryrkjum, þar eð ef lágmarkslaun hækka lítið eða ekkert þá hækkar lífeyrir lítið eða ekkert. Það er stefna KJ og BB að þetta fylgist að. Lífeyrir þeirra aldraðra og öryrkja, sem aðeins hafa lífeyri frá almannatryggingum og engar aðrar tekjur (engan lífeyrissjóð) er 212- 252 þús á mánuði eftir skatt eftir því hvort um er að ræða þá sem búa með öðrum eða einir.
Það eru aðeins 25% aldraðra, sem fá heimilisuppbót og aðeins 30% öryrkja sem fá þá uppbót. Það hefur því aldrei staðist, að aldraðir og öryrkjar hafi fengið 300 þús fyrir skatt; aðeins brot aldraðra og öryrkja hefur fengið þá upphæð.
Atvinnurekendur hamast nú við að berja niður kjarakröfur verkafólks og vilja halda lægstu launum niðri við sultarmörk; njóta stuðnings KJ og BB. Þessi barátta lendir einnig á öldruðum og öryrkjum eins og ég hef bent á.