Vegna yfirlýsingar Guðmundar Baldurssonar stjórnarmanns í Eflingu frá því í dag 1. nóvember viljum við undirrituð, meirihluti stjórnar Eflingar, koma eftirfarandi á framfæri:
Trúnaðarmenn starfsfólks á skrifstofu Eflingar hafa aldrei lagt fram við okkur ályktun sína frá því í júní á þessu ári. Við teljum eðlilegt að fjalla um mál séu þau lögð fyrir stjórn, en ekki að einstakir stjórnarmenn krefjist umfjöllunar um mál sem varða starfsmenn og framlagningar gagna þeim tengd án þess að aðilar máls hafi óskað þess. Slík vinnubrögð eru að okkar mati ekki eðlileg heldur ofríki.
Guðmundur Baldursson er frjáls að sínum skoðunum á því hvað hann vill að stjórn félagsins hlutist til um, en hann er þó bundinn af lýðræðislegu meirihlutasamþykki varðandi ákvarðanir stjórnar rétt eins og aðrir stjórnarmenn. Að sama skapi er lítið við því að gera þótt kröfur Guðmundar til ASÍ og SGS um íhlutun þessara sambanda í störf stjórnar Eflingar hafi reynst tilhæfulausar. Það stoðar lítt fyrir hann að barma sér yfir því í fjölmiðlum.
Við mótmælum niðrandi orðum Guðmundar um kynningu mannauðsstjóra á stjórnarfundi í sumar. Sú kynning var vönduð og til marks um gott starf í þeim málum á skrifstofunni. Við höfum á síðustu árum oft fengið kynningar frá stjórnendum vinnustaðarins þar sem óskað hefur verið eftir stuðningi og samþykki okkar fyrir ýmsum umbótum í starfsmannamálum. Dæmi um slíkt eru stytting vinnuvikunnar í tvígang, ráðning mannauðsstjóra, smíði starfsmannastefnu og starfsmannahandbókar, mánaðarlegar starfsánægjukannanir, kosning trúnaðarmanna sem var óheimil í tíð fyrri formanns, mánaðarlegir starfsmannafundir og regluleg starfsmannasamtöl. Við höfum ávallt stutt og samþykkt slíkar umbætur enda hefur okkur sýnst vel að þeim staðið og viljum allt hið besta fyrir starfsfólk Eflingar.
Þá viljum við segja að við mótmælum framgöngu Guðmundar Baldurssonar á opinberum vettvangi þar sem hann vísar m.a. í umræður á stjórnarfundum, sem er trúnaðarbrestur við stjórn félagsins.
Guðmundar hefur áður ófrægt okkur, félaga sína í stjórn félagsins, á opinberum vettvangi með ásökunum um við berum hag félagsmanna ekki fyrir brjósti. Guðmundur hefur gengið svo langt að kenna stjórn Eflingar um það að hópbifreiðastjórar hafi mætt illa á fund sem starfsfólk félagsins varði mikilli orku í að halda að ósk hans. Guðmundur mætti sjálfur ekki á þann fund, ekki frekar en aðra fundi með félagsmönnum Eflingar þar sem hann hefur iðulega verið fjarverandi.
Guðmundur hefur jafnframt lýst yfir þeirri skoðun sinni að hagsmunum félagsmanna Eflingar sé betur borgið með því að kljúfa sig út úr félaginu. Hann hefur lýst yfir ásetningi um að beita sér fyrir stofnun klofningsfélags í þessum tilgangi. Hann hefur haft þessi ummæli í frammi í opnum hópum á samfélagsmiðlum þar sem fulltrúar atvinnurekenda fjölda Eflingarfélaga eru meðlimir.
Að okkar mati þarf ekki að fjölyrða frekar um hollustu Guðmundar við Eflingu og félagsmenn Eflingar.
Við hvetjum Guðmund til að segja sig úr stjórn Eflingar og láta verða af hugmyndum sínum um stofnun nýs klofnings-stéttarfélags.
Agnieszka Ewa Ziółkowska
Ólöf Helga Adolfsdóttir
Eva Ágústsdóttir
Daníel Örn Arnarsson
Felix Kofi Adjahoe
Innocentia Fiati
Kolbrún Valvesdóttir
Michael Bragi Whalley
Stefán E. Sigurðsson
Zsófía Sidlovits
Jóna Sveinsdóttir