Vilja frekar Viðreisn eða Miðflokk en VG
„Með hliðsjón af úrslitum kosninganna væri fráleitt annað en að forystumenn stjórnarflokkanna létu reyna á það hvort ekki séu forsendur til að halda samstarfinu áfram. En það verður langt í frá einfalt. Þrátt fyrir allt er hugmyndafræðilegur ágreiningur verulegur, allt frá skipulagi heilbrigðiskerfisins til orkunýtingar og orkuöflunar, frá sköttum til ríkisrekstrar, frá þjóðgörðum til skipulagsmála, frá refsingum og þvingunum í loftslagsmálum til jákvæðra hvata og nýtingar tækifæra í orkuskiptum. Forystumenn stjórnarflokkanna þurfa að leiða ágreining í þessum málum og fleirum „í jörð“ ef ákveðið verður að endurnýja samstarfið. Niðurstöður kosninganna verða illa túlkaðar með öðrum hætti en þeim að til þess hafi formenn stjórnarflokkanna skýrt umboð meirihluta kjósenda,“ skrifar Óli Björn Kárason í Mogga dagsins.
Áfram skrifar þingmaðurinn Óli Björn:
„Hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsóknarflokkurinn geta hins vegar horft fram hjá þeirri staðreynd að sameiginlega eiga þeir kost á að mynda þriggja flokka stjórn með fleirum en Vinstri-grænum; annaðhvort með Flokki fólksins eða Viðreisn. Og raunar einnig með Miðflokki en slík stjórn yrði með minnsta mögulega meirihluta. Sé litið til málefna er það einfaldara fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk að mynda ríkisstjórn með Viðreisn eða Miðflokki en að halda góðu samstarfi við Vinstri-græna áfram. En svo getur Framsókn alltaf snúið sér til vinstri og tekið höndum saman við flokka sem eru „afvelta“ eftir kosningarnar.“
Vonlaust er að Óli Björn sé út á þekju. Eflaust endurspeglar hann vilja annarra þingmanna og óbreyttra flokksmanna í Sjálfstæðisflokki. Þá er spurt hvort Bjarni formaður fái umboð frá flokknum til að mynda ríkisstjórn með Vinstri grænum.