Báðir þingmenn Flokks fólksins hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um hagsmunafulltrúa aldraðra.
Inga Sæland formaður flokksins sagði á Alþingi:
„Við í Flokki fólksins höfum beitt okkur fyrir því og verið hugsjón okkar frá upphafi, ekki einungis að berjast gegn fátækt, heldur að taka utan um þá þjóðfélagshópa sem búa við erfiðar aðstæður. Í þessu tilviki erum við að tala um aldraða, þó sérstaklega með tilliti til þess að komið hefur í ljós við athuganir og rannsóknir á aðbúnaði aldraðra, sérstaklega þeirra sem hafa verið á sjúkrastofnunum og farið síðan heim, viljað fara heim, að aðbúnaði þar hefur verið virkilega ábótavant, allt of oft.
Hagsmunafulltrúa aldraðra er ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum aldraðra almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem og hjá einkaaðilum, leiðbeina öldruðum um réttindi sín og bregðast við telji hann að brotið sé á þeim. Hagsmunafulltrúa aldraðra ber að hafa frumkvæðiseftirlit með persónulegum högum allra eldri borgara og þá sérstaklega með tilliti til að koma í veg fyrir félagslega einangrun, næringarskort og almennt bágan aðbúnað þeirra. Jafnframt skal hann gera tillögur um úrbætur á réttarreglum er varða aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra.“