Vilja ekki útsvar á fjármagnseigendur
„Er á fundi borgarstjórnar vegna fjárhagsáætlunar Reykjavíkur þar sem meirihlutinn hyggst fella tillögu Sósíalista um að borgin skori á ríkið að leggja útsvar á fjármagnstekjur. Þetta var tillaga sem krafðist lítils af borginni. Það eina sem þurfti að gera var að samþykkja að skrifa undir áskorun til ríkisins. Þurfti ekki meira en það. En við því segist meirihlutinn ekki geta orðið. Rökin voru að tillagan væri bara bundin við eina útfærslu,“ skrifaði sósílalistinn Trausti Breiðfjörð Magnússon þegar hann sat á fundi borgarstjórnar í gærkvöld.
„Ef að borgin getur ekki lyft litla fingri til þess að auka réttlæti í borginni og sent þessa áskorun til ríkisins, þá er ekki hægt að gera ráð fyrir því að neinn vilji sé til að innheimta fé af fjármagnseigendum. Ef vandamálið var að tillagan væri bundin við eina útfærslu hefði auðveldlega verið hægt að komast að sameiginlegri lausn með okkur varðandi breytingar. En það var ekki gert.
Fyrir utan þetta hyggst meirihlutinn fella allar hinar breytingartillögur Sósíalista. Þar má nefna frystingu launa borgarfulltrúa, hækkun fjárhagsaðstoðar, að Félagsbústaðir byggi 3000 íbúðir og að allt skólastarf á vegum borgarinnar verði gjaldfrjálst með öllu.“