„Fulltrúar sósíalista hafna einkavæðingu en lagt er til að selja hlut af opinberu félagi til einkaaðila,“ bókuðu sósíalistar í borgarráði.
Hvað er það sem á að selja? Jú, Ljósleiðarann.
„Um þetta er fjallað í umsögn meirihluta rýnihóps borgarráðs um erindi Ljósleiðarans um hlutafjáraukningu. Ljósleiðarinn sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, byggir upp og rekur ljósleiðaranet fyrir heimili, fyrirtæki og stofnanir. Mikilvægt er að rekstur slíkra grunninnviða sé á vegum hins opinbera. Fulltrúar sósíalista hvetja borgaryfirvöld til að sækjast eftir undanþágu frá hamlandi tilskipunum EES samningsins sem fela í sér að rekstur félaga sem sjá um fjarskipti og net verða að vera á samkeppnismarkaði. Hér er um mikilvægan grunninnvið að ræða sem mikilvægt er að verði rekinn á samfélagslegum grunni,“ segir í bókun sósíalista.
„Píratar hafa staðið gegn tilraunum til að selja Ljósleiðarann að hluta eða í heild, meðal annars til að koma í veg fyrir fákeppni. Nú er komin upp sú staða að til að geta staðið áfram vörð um hag neytenda og tryggt fjárhagslega sjálfbærni þarf Ljósleiðarinn að stækka og byggja upp innviði. Eftir gagngera rýni virðist ljóst að hlutafjárútboð er sú leið sem best tryggir framtíð Ljósleiðarans og hlutverk hans. Mikilvægt er að mæta vaxtarþörfum Ljósleiðarans um leið og hagsmunir Reykvíkinga eru áfram tryggðir. Píratar standa ávallt vörð um hag almennings og gegn einokun á markaði. Það markmið skiptir meira máli en kreddufesta og mikilvægt er að bregðast rétt við breyttum aðstæðum. Ekki kemur til greina að selja Ljósleiðarann í heild, né að missa meirihlutastjórn í fyrirtækinu. Fjarskiptainnviðir eru mikilvægir samfélagslegir grunninnviðir,“ segir í bókun pírata.
„Slæm staða Ljósleiðarans hefur legið fyrir hjá Orkuveitu Reykjavíkur frá 2019 og jafnvel enn fyrr. Félagið er í dag skuldsett og er eiginfjárhlutfall orðið hættulega lágt. Eigendur, sem að stærstum hluta til er Reykjavíkurborg, voru ekki upplýstir um slæma stöðu fyrirtækisins þegar hún lá fyrir,“ segir meðal annars í bókun Kolbrúnar Baldursdóttur Flokki fólksins.
„Flokkur fólksins ætlar ekki að taka ábyrgð á málum sem fóru úrskeiðis á vakt hvorki síðasta né þessa meirihluta og tekur því ekki afstöðu um „heimild til hækkunar hlutafjár félagsins“ eins og lagt er til í umsögn borgarlögmanns og fjármálastjóra.“