Stuldurinn á auðlindunum þjóðarinnar er eitt mesta hneyksli Íslandssögunnar og hann verður að stoppa.
Katrín Baldursdóttir skrifar:
Að sjálfsögðu vilja hagsmunaöfl þeirra sem vilja fá auðlindirnar okkar nánast frítt til eigin nota ekki fá auðlindaákvæði í stjórnarskrána. Þeir vilja ekki að þjóðin eigi auðlindirnar. Þeir vilja sjálfir fá arðinn af auðlindunum eins og skýrt kemur fram í kvótakerfinu. Svo vilja þeir selja aðganginn sinn að auðlindunum og fá söluverðið í eigin vasa eða gefa afkomendum sínum, frændum eða frænkum aðganginn að auðlindunum. Eða bara gefa hann þeim sem þeim sýnist .
Stuldurinn á auðlindunum þjóðarinnar er eitt mesta hneyksli Íslandssögunnar og hann verður að stoppa. Og það strax. Það grátlega er hins vegar að enginn flokkur á Alþingi í dag vill breyta kerfinu þannig að tryggt verði að þjóðinni fái arðinn af auðlindunum. Þeir vilja bara fikta eitthvað við kerfið sem nú þegar er fyrir hendi.
Sósíalistaflokkurinn vill að auðlindir í náttúru Íslands séu sameiginleg og ævarandi sameign þjóðarinnar. Og hvaða auðlindir erum við sósíalistar að tala um? Í stefnu flokksins um auðlindamál stendur að auðlindir í þjóðareign séu öll náttúrugæði landsins, vistkerfi og nytjastofnar, vatn, rafmagn, jarðhiti, sjór, sjávarnytjar og andrúmsloftið við land-og lofthelgi landsins. Og að sjálfsögðu á það að vera skýrt í stjórnarskránni að auðlindirnar séu í þjóðareign. Til þess að stefna Sósíalistaflokksins í auðlindamálum geti orðið að veruleika verður að stokka upp núverandi kvótakerfi. En það er voða viðkvæmt hjá hinum flokkunum, meira að segja þeim sem segjast fylgjandi því að auðlindaákvæðið fari inn í stjórnarskrána.