- Advertisement -

Vilja betri Kjalveg, þá í einkaeign

Fimm þingmenn vilja að Kjalvegur verði betrumbættur þannig að hann verði akfær mestan hlut ársins. Þeir vilja samt ekki að ríkið, eða Vegagerðin, komi þar nærri, alla vega ekki sem neinu nemur. „Í stuttu máli felst í einkaframkvæmd að einkaaðili taki að sér fjármögnun, framkvæmd og rekstur verkefnisins í umboði hins opinbera.“

Það eru flokksbræðurnir, Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason sem flytja tillöguna.

Í greinagerðinni segir: „Töluverð rannsóknarvinna hefur verið unnin vegna nokkurra af þeim leiðum sem liggja um hálendið, svo sem um Sprengisand, Fjallabak og Kjöl, og til er mikið af gögnum um þær. Fornir hálendisvegir hafa þó verið í niðurníðslu undanfarin ár og flokkast frekar sem slóðar en vegir. Kjalvegur hefur frá landnámsöld verið mikilvæg samgönguæð milli norður- og suðurhluta landsins og þrátt fyrir mikla uppbyggingu á hringveginum síðustu áratugi er mikilvægi vegarins enn mikið. Þrátt fyrir það hefur veginum ekki verið haldið við eins og nauðsynlegt er. Hér er lagt til að vegurinn yfir Kjöl verði endurnýjaður og lagður bundnu slitlagi þannig að unnt verði að halda honum opnum mestan hluta ársins og að verkefnið verði unnið sem einkaframkvæmd.“

Þingmennirnir segja: „Gert er ráð fyrir að framkvæmdin standi undir sér að öllu leyti með notendagjöldum með svipuðum hætti og staðið hefur verið að málum varðandi Hvalfjarðargöng, þar sem gjöldin hafa staðið undir fjármögnun, rekstri og viðhaldi ganganna. Aðkoma hins opinbera að slíkum verkefnum felst einkum í að heimila framkvæmdina og setja um hana reglur.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þingsályktunin er svona: „Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hefja undirbúning að endurnýjun vegarins yfir Kjöl sem heilsársvegar með einkaframkvæmd. Ráðherra hlutist í þessu skyni til um að gerð verði forkönnun á umhverfisáhrifum og samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum framkvæmdarinnar, m.a. á ferðaþjónustu, byggðaþróun og náttúruvernd. Stefnt verði að því að undirbúningi framkvæmda ljúki fyrir árslok 2019 og framkvæmdir hefjist í beinu framhaldi.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: