Alþingi Þingmenn Píratar vilja afnema lög um helgidagafrið Þjóðkirkjunnar. Þingmennirnir segja að bent hafi verið á að þjóðkirkjan stundi ekki neitt eftirlit með því hvort lögunum sé fylgt og ljóst að ekki hafi verið farið eftir þeim í hvívetna.
Þá segja þingmennirnir í greinagerð með frumvarpinu að markmið laganna, sem þeir vilja afnema, sé að vernda helgihald og tryggja frið, næði og hvíld og takmarka afþreyingu fólks á helgidögum þjóðkirkjunnar. „Flutningsmenn sjá ekki ástæðu til að takmarka frelsi fólks með lögum þannig að það varði sektum að standa að t.d. bingói, happdrætti, dansleikjum eða öðrum samkomum á helgidögum þjóðkirkjunnar.“
Í greinagerðinni segir t.d.: „Flutningsmenn telja ástæðulaust að takmarka með lögum frelsi fólks á tilteknum dögum til þess eins að annað fólk fái þá frið til að stunda helgihald. Það hlýtur að stríða gegn því frjálsa samfélagi sem við viljum hafa í hávegum. Að auki gerir stóraukinn straumur ferðamanna það að verkum að nauðsynlegra er nú en fyrr að gera breytingar á helgidagalöggjöfinni. Frítökuréttur og hvíldartími er þegar tryggður í kjarasamningum en flutningsmenn leggja til orðalagsbreytingar á lögum um 40 stunda vinnuviku til að tryggja rétt til frídaga enn frekar þannig að í stað þess að helgidagar þjóðkirkjunnar séu skilgreindir sem frídagar verði umræddir dagar taldir upp í ákvæðinu sem lögbundnir frídagar.“