- Advertisement -

Vilja afnema forréttindi þjóðkirkjunnar

„Sú aðgerð að skylda sveitarfélög einhliða til að ráðstafa dýrmætu landi án endurgjalds til trúfélaga sem eftir því sækjast á ekki við í nútímasamfélagi þar sem lóðir eru takmörkuð auðlind. Flutningsmenn telja enn fremur engin gild rök fyrir því að sveitarfélögum sé gert skylt að láta af hendi lóðir án endurgjalds til trú- og lífsskoðunarfélaga frekar en annarra félaga.“

Þetta segir meðal í greinargerð lagafrumvarps á Alþingi. Frumvarpið gengur út að afnumin verði lagaskylda sveitarfélaga til að afhenda ókeypis lóðir undir kirkjur og íbúðarhús sóknarpresta.

Þingmennirnir vilja afnema 5. Grein laga um Kristnisjóð.

Þar segir að sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna er skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. „Nú er presti skylt að hafa aðsetur í kaupstað eða kauptúni og er þá sveitarfélagi skylt að leggja til ókeypis lóð undir íbúðarhús hans ef um lögboðið prestsetur er að ræða,“ segir í lagagreininni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Lög um Kristnisjóð o.fl. byggjast í öllum meginatriðum á tillögum prestakallanefndar sem kirkjumálaráðherra skipaði 23. apríl 1965. Á þeim tíma var trúarlíf þjóðarinnar mun einsleitara en nú auk þess sem meiri sátt ríkti almennt um þátttöku opinberra aðila í rekstri trúfélaga,“ segir í greinargerðinni.

Þar segir einnig: „Samkvæmt 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, nýtur Hin evangelíska lúterska kirkja stöðu þjóðkirkju á Íslandi og skal ríkið að því leyti styðja hana og vernda. Í 65. gr. stjórnarskrárinnar er hins vegar kveðið á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.“

Það eru þingmenn Pírata og Viðreisnar sem standa að frumvarpinu. Flutningsmenn eru; Helgi Hrafn Gunnarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Halldóra Mogensen, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Þorsteinn Víglundsson, Smári McCarthy og Björn Leví Gunnarsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: