„Flutningsmenn benda á að lífsgæði og aðstæður hafa breyst mikið frá því að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins voru sett. Auknar lífslíkur og bætt heilsa fólks hefur gert því kleift að starfa lengur en það gerði áður. Telja flutningsmenn rétt að opinber stefna í atvinnumálum endurspegli þá breytingu og gefi þeim sem vilja starfa lengur og hafa heilsu til þann möguleika. Þessu til stuðnings má nefna að í sumum tilfellum halda starfsmenn opinberra stofnana áfram störfum fyrir þær sem verktakar eftir starfslok við 70 ára aldur. Jafnframt kann að vera að hið opinbera tapi þekkingu til hins almenna vinnumarkaðar þar sem ekki er að finna sambærilegar aldurstakmarkanir,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir á Alþingi.
„Tillögu þessari er hvorki ætlað að hvetja opinbera starfsmenn til að lengja starfsævi sína né þrýsta á um það og mikilvægt er að sjónarmið fulltrúa opinberra starfsmanna komi fram þegar reglum um þá er breytt. Flutningsmenn leggja því áherslu á að unnið verði að afnámi umræddra aldurstakmarkana í samvinnu við samtök opinberra starfsmanna og leggja áherslu á mikilvægi þess að útfærsla afnámsins verði vönduð og unnin í sátt.“