„Þeir efnahagserfiðleikar sem eru að skella á þjóðinni um þessar mundir mega gjarnan verða áminning um hve mikilvægt er að hlúa að þessari undirstöðu atvinnulífsins. Það er gríðarlega þýðingarmikið að Íslendingar búi að sjávarútvegi á heimsmælikvarða og hann var ekki byggður upp og honum verður ekki við haldið með sífelldum úrtölum og árásum á greinina,“ segir í leiðara Moggans.
Leiðari Moggans er stundum sem opið bréf frá Davið til Bjarna.
„Miklu nær væri, meðal annars í ljósi þeirra erfiðleika sem nú eru upp komnir, kórónuveiru og loðnubrests, að reynt yrði að styðja við sjávarútveginn og efla þau útflutningsverðmæti sem hann getur skapað. Liður í því gæti verið að stjórnvöld endurskoðuðu þátttöku sína í misheppnuðu viðskiptabanni gegn Rússlandi og tryggðu þannig að mikilvægir markaðir sjávarútvegsins opnuðust á nýjan leik.“
Skilaboðin hafa verið send í vígi Bjarna við Ingólfsstræti.
Í Fréttablaðinu er einnig fjallað um sjávarútveginn. Ekki í leiðara. Heldur í frétt:
„Velta sjávarútvegs síðustu tveggja mánaða síðasta árs var ríflega sex prósent meiri en á sama tímabili árið áður. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. Þá var velta í heild nær fjórtán prósent meiri í fyrra en árið 2018.“
Þetta er allur vandinn. Að auki er krónan í frjálsu falli og það færir ómælda peninga frá almenningi til útflutningsfyrirtækja. Ekki síst til útgerðarinnar.