Valnefndir hafa mikil áhrif þrátt fyrir ábyrgðarleysið.
„Sú umræða einskorðast gjarnan við krónur og aura, en það sem Sigurður Ingi benti á og snýr að völdum stjórnmálamannanna annars vegar og völdum ýmissa andlits- og ábyrgðarlausra nefndarmanna hins vegar er miklu stærra mál,“ skrifar Davíð í Moggann sinn og vitnar þar til orða formanns Framsóknarflokksins í útvarpinu K-100.
„Nú má út af fyrir sig deila um hvort bankaráðin fóru út fyrir eigendastefnuna eins og hún er orðuð, en sú ábending Sigurðar Inga, að almennt hefði verið gengið of langt í að afhenda völd kjörinna fulltrúa andlitslausum nefndum, er fyllilega réttmæt.“
Ljós er áhugi þeirra beggja til að stjórnmálamenn, helst ráðherrar, fái meiru ráðið.
„Hann nefndi til dæmis „valnefndir sem eru andlitslausar en síðan er það ráðherrann sem ber ábyrgð á niðurstöðunni“.“
Og Davíð skrifar: „Þetta er vel þekkt vandamál og nokkuð sem verður að taka á. Valnefndir hafa mikil áhrif þrátt fyrir ábyrgðarleysið og hafa jafnvel reynt að stilla ráðherrum upp við vegg, eins og til dæmis þegar valnefnd reyndi að ráða að öllu leyti vali dómara í landsrétt með því að mæla með nákvæmlega þeim fjölda sem skipa átti í réttinn.“