„Þá færi þessi eign að skila okkur arði í gegnum minni fjármagnskostnað og aukna verðmætasköpun í gegnum betri innviði.“
„Ísland er velferðarsamfélag sem sést best á því að hver mælikvarðinn á fætur öðrum sýnir að Ísland sé best í heimi og að hvergi sé betra að búa en hér á landi. Enn stöndum við þó frammi fyrir ýmsum áskorunum svo að við getum hlúð að velferð íslensku þjóðarinnar og einstakra hópa sem þarf að hlúa betur að. Sterkir og öflugir innviðir skipta þar mestu máli til að við getum gert enn betur, gert gott velferðarkerfi enn betra, leyst áskoranir,“ sagði Vilhjálmur Árnason þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins, þegar hann spurði Bjarna fjármálaráðherra og formann flokksins um ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.
Síðar í ræðu sinni sagði Vilhjálmur:
„Isavia, sem er líklega metið á rúmlega 200 milljarða, borgar t.d. ekki arð til ríkissjóðs. Þar eru miklar framkvæmdir í gangi og það eykur fjárhagslega áhættu ríkissjóðs sem eins eiganda fyrirtækisins. Væri ekki ráð að losa um 100 milljarða út úr þessu fyrirtæki og greiða upp skuldir, þá annars vegar innviðaskuldir og hins vegar fjárhagslegar skuldir ríkissjóðs? Þá færi þessi eign að skila okkur arði í gegnum minni fjármagnskostnað og aukna verðmætasköpun í gegnum betri innviði.“