Fréttir

Vildi Katrín alltaf Sjálfstæðisflokkinn?

By Miðjan

November 26, 2017

Stjórnmál Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir súrt að hugsa til þess að viðræður stjórnarandstöðunnar síðustu um stjórnarsamstarf hafi aðeins verið til þess að Katrín gæti sagst hafa reynt „fyrsta val Vg“ en verið með annað í huga og á bak við eyrað.

Hún segir að þær viðræður hafi staðið nógu lengi til að Katrín og Sigurður hafi farið nestuð í viðræður við Bjarna; „…í þessa stórundarlegu brúarmyndun á milli hægri og vinstri sem enginn hefur kallað eftir nema þeir sem vilja loka augunum fyrir spillingu og draga tennurnar úr vinstrinu.“

Oddný vitnar í skrif Illuga Jökulssonar: ,,Mér finnst sem sé minni en engin þörf á „sögulegum sáttum“ einhverra gamalla stríðshrossa. Það er aftur á móti þörf á umbyltingu í hugarfari, stjórnsýslu, upplýsingum, valddreifingu og svo mætti lengi, lengi telja. Og fyrir því mun ríkisstjórn með helming ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum ekki beita sér, því miður. Hversu mikið sem við öndum með nefinu og hversu dásamlegur verður stjórnarsáttmálinn. Vg virðist vera að missa af ansi merkilegu tækifæri til að leiða sókn til nýrra tíma. Því miður.“