Vikuskammtur af prumpi
Þarna hitti óhittinn naglann á höfuðið.
Sigujón M. Egilsson skrifar:
Fyrir margt löngu leið ekki sú helgi að ég læsi ekki helgarblaðs Þjóðviljans. Þá hreyfst ég af krafti Svavars Gestssonar. Annar okkar hefur greinilega breyst. Ég eða Svavar. Ekki síður beið ég þess að lesa greinar Flosa heitins Ólafssonar.
Fyrirsögn einnar greinar Flosa var þessi: „Vikuskammtur af prumpi.“ Þetta rifjaðist upp þegar ég las Reykjavíkurbréf Davíðs í Mogga morgundagsins. Bréfið er uppfullt af prumpi. Hann meira að segja vill kenna langþreyttu láglaunafólki um vanda WOW.
Það er ekki allt. Davíð er lítt hrifinn af nýju forystufólki launafólks. Gerir allt sem hann getur til að draga úr trúverðugleika þess. Sem betur fer getur hann lítið gert.
Hér er eitt dæmi: „En það auðveldar svo sannarlega ekki þann leik að lukkuriddarar hafi á versta tíma náð því að gerast laumufarþegar í verkalýðshreyfingunni og hika ekki við að beita aðferðum sem eru handan við þekkt og viðurkennd mörk. Mörg þúsund félagsmenn „fá“ nú að greiða atkvæði í sendibíl, undir vökulu auga verkfallsboðenda, um að senda 700 útlendinga í skæruverkföll gegn ungri grein á vinnumarkaði.“
Þarna hitti óhittinn naglann á höfuðið. „…handan við þekkt og viðurkennd mörk.“ Þetta er magnað. Fólkið sem hefur valist til forystu er öðruvísi en það fólk sem var sett af. Sem betur fer segja eflaust margir. Og svo hitt. Davíð talar um viðurkennd mörk. Dregur hann upp hvar mörkin liggja? Eða gerir SA það? Meira lifandis bullið. Sannkallað prump.
Best að leyfa forsætisráðherranum fyrrverandi að hafa orðið um stund:
„Fá lönd í heiminum eru eins bundin í hagldir launþegahreyfinga og enn er reyndin hér á landi. Í raun eru það Samtök atvinnulífsins sem hafa rekið þau trippi fyrir viðsemjendur sína. Það hefur orkað tvímælis lengi, svo ekki sé meira sagt. En forsenda þess hefur verið sú að verkalýðshreyfingin misnoti ekki afl sitt og stöðu í þjóðfélaginu og sverfi svo að fyrirtækjunum að þeim verði ómögulegt að halda rekstri sínum gangandi í óbreyttri mynd. Þegar svo er komið er verkalýðshreyfingin farin að gjalda sjálfri sér höggin en þó fyrst og síðast félagsmönnunum sem fæstir kusu þessa „leiðtoga.“ Lengi mun svíða í þau sár.“
Ljóst er að Davíð opnar ekki gluggana. Hleypir ekki inn fersku lofti. Þrífst þá sennilega ekki. Og hann hlustar ekki. Barátta láglaunafólks snýst um að geta lifað af launum sínum. Davíð finnur ekki til með þeim tíu þúsund börnum sem lifa í fátækt. Hann hefur hins vegar samúð með þeim örfáum fyrirtækjum sem ráða ekki við að borga mannsæmandi laun.
Síðan heldur hann áfram með þá skoðun sína að veikja þurfi lagagrunn verkalýðsfélaga. Vill ofbeldi ríkisins gegn verkalýðnum.
Skrif Davíðs Oddssonar uppfylla kröfurnar til að geta kallast: Vikuskammtur af prumpi.