- Advertisement -

Viktoríu var hent í fangaklefa og úr landi

Kerfið er búið að brjóta á henni aftur og aftur, ekki farið eftir lögum og henni hent eins og einhverju rusli til Rússlands þar sem hún á á hættu að vera handtekin við komu. Hvurslags þjóðfélag er þetta sem við búum í?

Alma Gunnlaugsdóttir.

„Ég kynntist þessari stelpu, Viktoría Þórunn, fyrir rúmum 5 árum, ef ekki 6 árum síðan, þar sem hún bjó úti á landi. Hún var að sækja um atvinnuleyfi, búin að vera gift en var fráskilin og fékk ekki landvistarleyfi sökum þess að eiginmaður hennar var á sakaskrá. Hún ætlaði að vera hjá mér í viku á meðan ég aðstoðaði hana með umsóknina og fékk gistingu hjá pabba,“ skrifar Alma Gunnlaugsdóttir á Facebook.

Saga Viktoríu er ekki góð. Meðferðin sem hið opinbera sýnir henni er vond.

„Þetta dróst aðeins og dvaldi hún lengur. Það sem átti að vera vika varð að tæpum 5 árum, sem hún hefur búið hjá pabba. Orðin ein af fjölskyldunni. Allan þann tíma höfum við gert allt sem í okkar valdi stendur til að hún fengi landvistarleyfi. Pabbi staðið í bréfaskriftum, samskiptum við lögmenn og ríkið, skutlað henni til að “tilkynna” sig og ég gæti talið margt fleira upp. Búin að vera með lögfræðinga sem aðstoðuðu á meðan þeir voru á spenanum hjá ríkinu en um leið og endanleg niðurstaða kom í málið þá droppuðu þeir henni og vildu ekkert með málið hafa. Henni var gert sl. ár að tilkynna sig til lögreglu 3x í viku en í sama bréfi stóð neðar að hún ætti að tilkynna sig 5x í viku en sögðu henni að fara eftir hinu fyrra, þrátt fyrir að lögreglan vissi mæta vel hvar hún byggi og var í engum felum. Fékk engan styrk frá ríkinu, ekki svo mikið sem strætókort. Hún fer samviskusamlega eftir þessu, nema í gær þegar hún tilkynnir sig er hún handtekin, síminn tekinn af henni, henni hent í fangaklefa á Hverfisgötunni. Við fjölskylda hennar fáum ekki að tala við hana né sjá. Í skjóli nætur er hún flutt útá flugvöll og send úr landi. Með ekkert nema fötin sem hún er í. Fáum skilaboð 20 mín fyrir flugtak snemma í morgun. Fékk símann í smá stund fyrir “góða hegðun”. Það fylgdu henni 4 lögreglumenn, FJÓRIR! Þetta er ung stelpa sem hefur ekkert þráð meira en að eiga heimili, fjölskyldu, vini, getað unnið fyrir sér og átt gott líf. Hún er send heim til Rússlands, þar sem hún er alslaus. Engin fjölskylda, engir vinir, enginn samanstaður. Þeir fylgja henni til Georgíu, voða sér ekki alla leið til Rússlands, ræflarnir.“

„Ég hef ekkert á móti lögreglunni né er ég fylgjandi því að fylla landið af flóttamönnum en ráðamenn ættu að skammast sín fyrir framkomu sína gegn þessari ungu konu. Kerfið er búið að brjóta á henni aftur og aftur, ekki farið eftir lögum og henni hent eins og einhverju rusli til Rússlands þar sem hún á á hættu að vera handtekin við komu. Hvurslags þjóðfélag er þetta sem við búum í? Hvernig sefur þetta fólk á nóttunni? Þetta er það sem skattpeningarnir okkar fara í – 4 lögreglumenn að fylgja 50 kg stelpu úr landi, sem sýnir engan mótþróa, algjörlega brotin, hrædd. Ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur í dag og ég vona að þeir sem komu að þessari “aðgerð” skammist sín líka, þó ég stórlega efi það,“ skrifar Alma Gunnlaugsdóttir.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: