Davíð Oddssyni hefur runnið blóðið til skyldunnar. Mogginn birtir heljarinnar langt viðtal við ríkislögreglustjórann,. Harald Johannesson. Í embættinu kraumar allt í ósætti. Menn bera hvern annan alvarlegum sökum. Haraldur er engin undantekning þar á.
Í langa Moggaviðtalinu kemur Haraldur víða við. Segist til að mynda vilja fá starfslokasamning. Annað er merkilegra. Það er hvernig hann talar um og lýsir ástandinu milli hans og Víkingasveitarinnar.
„Þeir hafa skrifað dómsmálaráðherra bréf með alls kyns umkvörtunarefnum og við yfirmennirnir höfum svarað dómsmálaráðuneytinu. Ég hef til skoðunar að fram fari úttekt á menningu sérsveitarinnar en einnig er tímabært að marka framtíðarstefnu fyrir hana, hversu fjölmenn hún á að vera og hvert hlutverk hennar og geta á að vera. Sérsveit er kannski sú eining innan lögreglunnar sem þarf hvað mesta og styrkasta stjórn. Þar geta starfsmenn ekki gengið fram eins og þeim hentar. Ég hef velt því fyrir mér hvort óánægja sérsveitarmanna með ríkislögreglustjóra stafi kannski af því að þeir fái ekki öllu sínu framgengt. Ég hef velt því fyrir mér hvort ekki sé tímabært að fram fari athugun fagaðila á þeim menningarafkima sem ég held kannski að sérsveitin sé,“ segir Haraldur í langa Moggaviðtalinu.