„Aðdróttunum og ásökunum áheyrnarfulltrúa Miðflokksins er alfarið vísað á bug.“
„Eins er varað við „Jóhönnuáhrifum“ sem tillögur þessar gætu leitt af sér, en þar er átt við eftirköst sem sveitarfélög sátu uppi með eftir átak í uppbyggingu félagslegs húsnæðis þegar Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra, og setti mörg sveitarfélög næstum í þrot. Reykjavík hefði átt að vera í forgangi í þessari vinnu því hér eru vandamálin og mesta þörfin. Enn og aftur er bent á misvísandi tölur í uppbyggingu á ódýru húsnæði í Reykjavík sem er til skammar en stafar e.t.v. af þekkingarleysi,“ sagði Vigdís Hauksdóttir í borgarráði.
Orð Vigdísar féllu í umræðu um húsnæðismál, þar sem meirihlutinn bókaði:
„Reykjavík hefur allt frá upphafi laga um almennar íbúðir lagt áherslu á gott samstarf við verkalýðshreyfinguna og önnur uppbyggingarfélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Með öðrum orðum þá er um 90% af öllum stofnframlögum að fara til uppbyggingar innan Reykjavíkur. Þá er mikilvægt að önnur sveitarfélög taki þátt í þessari uppbyggingu almennra íbúða.“
Dagur og hans félagar voru á öðru máli en Vigdís, um aðkomu Jóhönnu á sínum tíma, og svöruðu fullum hálsi:
„Aðdróttunum og ásökunum áheyrnarfulltrúa Miðflokksins er alfarið vísað á bug og eiga söguskýringar hans vart við rök að styðjast enda er ekki hægt að draga einn valdhafa til ábyrgðar umfram annan þegar við fjöllum um ástandið á húsnæðismarkaðinum í dag. Slíkar skýringar eru í besta falli hlægileg einföldun eða bera e.t.v. vott um þekkingarleysi.“
Vigdís var ekki hætt: „Því er endalega vísað á bug að Reykjavíkurborg hafi verið leiðandi í uppbyggingu fjölbreytts íbúðarhúsnæðis því áherslan hefur eingöngu verið á lúxusíbúðir á dýrum þéttingarreitum, það á ekkert skylt við hugtakið húsnæði fyrir alla.“
Þá svaraði meirihlutinn: „Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum fullyrðingum áheyrnarfulltrúans og það veit hver maður sem hefur kynnt sér aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030.“
Vigdís átti síðasta orðið: „Blekkingin heldur áfram hjá meirihlutanum.“