Vigdís talaði 115 sinnum um sama mál
Alþingi „Mig langar til að upplýsa það að ég bað upplýsingadeild þingsins um að taka það saman fyrir mig í gærkvöldi hvað væri búið að tala í marga klukkutíma undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta. Í gærkvöldi milli sjö og átta þá voru þetta orðnir um níu klukkutímar,“ upplýsti Vigdís Hauksdóttir á Alþingi í gær.
„Meira en einn vinnudagur í dagskrárliðinn um fundarstjórn forseta,“ sagði hún og bætti við: „Ég fékk senda slóð frá upplýsingadeildinni þar sem þetta er talið jafnharðan. Margir eru búnir að biðja um orðið undir þessum lið í þessum töluðum orðum. Á eftir ætla ég að gefa merki og gefa nákvæma stöðu á því hve margar ræður eru búnar þegar þessari hrinu er lokið og í hvað margar mínútur og í hvað margar klukkustundir.“
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Vinstri grænum, sagðui merkilegt að Vigdís ætli að taka að sér að halda utan um hvernig við stjórnarandstöðuþingmenn far með tímann. „Það væri ekki úr vegi að fara svolítið yfir það og rifja það upp þegar hún var í stjórnarandstöðu. Í einu og sama málinu fór hún 115 sinnum í pontu og taldi það ekki vera málþóf og taldi sig ekki vera að segja sömu hlutina oft. Það var ekki alveg þannig.“
Bjarkey sagði þetta tækifæri til að koma óánægju á framfæri við forseta. „…og við gerum það og höfum gert og munum halda áfram að gera það. Það að forseti segi ákveðið að þetta mál verði á dagskrá þar til umræðu lýkur, henni lýkur þá bara og ekkert annað verður tekið fyrir, ef forseti ætlar að halda sínu striki.“