Vigdís segir valdníðslu á Laugavegi
„Meirihlutinn kýs ófrið þegar friður er í boði.“
„Enn heldur meirihlutinn áfram með hreina valdníðslu að loka Laugaveginum, Bankastræti og götum í Kvosinni fyrir allri umferð þvert á vilja rekstraraðila sem þar starfa,“ bókaði Vigdís Hauksdóttir á borgarráðsfundinum í gær.
Í borgarráði kom fram að útfærsla umhverfis- og skipulagssviðs feli; „…í sér umfangsmikið samráð með margvíslegum hætti. Hvort sem er á vefnum, hér á jarðhæð Ráðhússins eða á fundum með hagsmunaaðilum.“
Vigdís gefur ekki mikið fyrir þetta: „Meirihlutinn kýs ófrið þegar friður er í boði. Nú er boðað til þess sem meirihlutinn kallar „samráð“. Slíkt hefur sjaldan virkað hjá borginni því búið er að ákveða niðurstöðuna fyrir fram. Stríð borgarinnar við íbúa og þjónustuaðila sem á þessu svæði starfa heldur því áfram.“
Hún benti á að ef minnst tuttugu prósent af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óski almennrar atkvæðagreiðslu verði að verða við þeirri kröfu. „Það er löngu tímabært að Reykvíkingar segi álit sitt á þeirri aðför sem hefur staðið yfir um langa hríð að þessu svæði.“