„Það er beinlínis ósatt sem Dagur sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að engar athugasemdir hefðu verið gerðar. Þegar kíkt er yfir fundargerðir innkauparáðs frá 2017 þá er verið að kalla þar eftir þessum upplýsingum,“ segir Vigdís Hauksdóttir í Mogganum í dag.
„Pólitíska ábyrgðin er sú að hann á að segja af sér eftir þessa skýrslu. Það er stofnun borgarinnar sem fellir þennan áfellisdóm yfir bæði borgarstjóra, stjórnsýslu borgarinnar og stjórnkerfi. Þarna var farið mjög frjálslega með fé útsvarsgreiðenda og farið frjálslega í kringum lög,“ segir Vigdís Hauksdóttir á sama stað
Vigdís sagði, sé rétt munað, að það væri ekki hennar að segja til um hvers segði af sér og hver ekki þegar flokksfélagar hennar jusu svívirðingum yfir fjölda fólks sauðdrukknir í vinnutímanum. En nú er annað uppi á teningnum.
„Ég tel að þarna séu svo margar ógætnisvillur og mikil tenging á milli aðila og embætta hjá borginni. Það eitt kemur berlega í ljós hvernig borgarstjóra er hlíft í þessari skýrslu. Þetta er það sem ég var að vara við allan tímann; að borgin getur ekki skoðað sjálfa sig,“ segir Vigdís um braggamálið.