Fréttir

Vigdís fer ekki í framboð

By Ritstjórn

March 09, 2022

Vigdís Hauksdóttir skrifar:

Kæru stuðningsmenn og Reykvíkingar.

Ég þakka ykkur fyrir að veita mér brautargengi í Alþingiskosningum 2009 og 2013 og borgarstjórnarkosningum 2018. Að sitja í tæp tólf ár sem kjörinn fulltrúi í umboði ykkar hefur verið afar lærdómsríkt og ekki síður gefandi. Ég hef alltaf sagt að vika er langur tími í pólitík og hef nú tekið ákvörðun um að sækjast ekki eftir að leiða Miðflokkinn í borgarstjórnarkosningum í vor.

Ástæðurnar eru margar.

Í fyrsta lagi hefur kjörtímabilið verið mjög krefjandi pólitískt séð. Ég hef flett ofan af fjármálasukki í fjölda málaflokka í borgarrekstrinum án nokkurra afleiðinga fyrir borgarstjóra og meirihlutann. Í öðru lagi er fjárhagsstaða Reykjavíkur komin langt yfir hættumörk. Skuldirnar eru stjarnfræðilegar og áætlað er að þær verði 240 milljarðar í árslok 2026. Þar af er búið að skuldsetja næsta kjörtímabil upp á 92 milljarða samkvæmt lántökuáætlun. Það er sérlega ósvífið. Í þriðja lagi þá hefur viðhald skólahúsnæðis verið ófullnægjandi og grunnskólabörn eru á hrakhólum út um alla borg. Ekki hefur verið staðið við uppbyggingu leikskóla og borginni er haldið í heimatilbúnum lóðaskorti sem leiðir til fasteignaverðs í hæstu hæðum. Í fjórða lagi bendir ekkert annað til þess en að borgarstjóri ætli sér að halda völdum með einhverjum útfærslum að nýjum viðreistum meirihluta eins og í kosningunum 2014 og 2018.

Ég sé því ekki fyrir mér að nokkuð breytist á næsta kjörtímabili. Ég met það svo að gagnrýni mín á rekstur borgarinnar með tillögum til úrbóta fái ekki hljómgrunn að kosningum loknum.

Með hlýjum vorkveðjum Vigdís Hauksdóttir.