- Advertisement -

Viðskiptamenn Íslandsbanka sendir í gapastokk – Katrín kemur af fjöllum

Katrín Jakobsdóttir:

„Væntanlega eru þessi vanskilalán hluti af lánabók bankans.“

„Í viðbótargögnum sem fjárlaganefnd fékk frá Bankasýslunni er kafli sem ber yfirskriftina Sala rekstrareininga Íslandsbanka. Þar segir Bankasýslan að eftir að hafa fundað með Íslandsbanka séu veigamikil rök fyrir því að Íslandsbanki selji frá sér vanskilaútlán áður en bankinn verður seldur. Í júní síðastliðnum voru vanskilalán um 27 milljarðar kr.,“ sagði Birgir Þórarinsson Miðflokki á Alþingi, fyrr í dag.

„Er það virkilega rætt hjá ríkisbanka að lántaki, fólk og fyrirtæki, ekki síst í ferðaþjónustu, þurfi að eiga við eitthvert innheimtufyrirtæki úti í bæ um endurskipulagningu lána sinna? Á að innleiða hér bandaríska stílinn þar sem lán í vanskilum eru seld til innheimtufyrirtækja á hrakvirði og þessi fyrirtæki herja á skuldarana fram á grafarbakkann? Eru stjórnendur ríkisbanka, opinber stofnun eins og Bankasýslan sem heyrir undir fjármálaráðherra, virkilega að leggja til að það verði innheimtufyrirtæki úti í bæ, hrægammar, sem fái að hamast á fólki og fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir vanskilum vegna veirufaraldursins? Eru menn búnir að gleyma Drómamálinu þar sem skuldarar vegna hrunsins fengu engan stuðning og þurftu löng málaferli til að ná fram rétti sínum? Eru menn búnir að gleyma því þegar Fjármálaeftirlitið sagði innheimtufyrirtækinu Dróma að fara að lögum og Drómi sagðist ekki þurfa þess. Drómi var þekkt fyrir bíræfni í innheimtu og miskunnarleysi gagnvart minni máttar,“ sagði Birgir.

„Er þetta þessi vandaði undirbúningur sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir svo að selja megi bankann? Að senda almenning og fyrirtæki í viðskiptum við Íslandsbanka sem hafa lent í vanskilum vegna veirufaraldursins í gapastokk innheimtufyrirtækja úti í bæ? Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar, hæstvirtur forsætisráðherra?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

„…ég hef ekki séð þau gögn…“

„Ég þakka háttvirtum þingmanni fyrirspurnina. Hann vitnar til viðbótargagna sem komið hafi á borð fjárlaganefndar frá Bankasýslu ríkisins og gefur til kynna að Bankasýslan leggi til að vanskilalán verði seld sérstaklega út úr Íslandsbanka. Það er ekki hluti af þeirri tillögu sem hefur verið á borði hæstvirts fjármálaráðherra sem snýst einfaldlega um að skrá fjórðungshlut Íslandsbanka á markað með opnum og gagnsæjum hætti,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

„Hvað varðar þessa spurningu þingmannsins þá verð ég bara að segja að ég hef ekki séð þau gögn sem hann vitnar hér til. Það hefur ekki komið til umræðu að selja einhverja sérstaka hluta út úr bankanum. Hér hefur eingöngu verið rætt um af okkar hálfu að gera þetta með opnum og gagnsæjum hætti eins og lagt er upp með í þeirri tillögu sem fór til þingsins.“

„Væntanlega eru þessi vanskilalán hluti af lánabók bankans,“ sagði Katrín svo í seinna svari sínu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: